5 Október 2020 17:51
Staða COVID mála er óbreytt á Austurlandi, einn er enn í einangrun vegna smits.
Aðgerðastjórn vekur athygli á þeim breyttu sóttvarnareglum er tóku gildi á miðnætti. Helstu breytingarnar snúa að krám, skemmtistöðum, spilasölum og líkamsræktarstöðvum sem verður lokað. Sundlaugar verða opnar með þrengri fjöldatakmörkunum en áður. Reglur er varða leik- og grunnskóla eru óbreyttar. https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2020/10/04/COVID-19-Breyttar-reglur-um-samkomutakmarkanir-og-skolahald/
Aðgerðastjórn áréttar að enn eru íbúar í fjórðungnum í ágætum málum með einungis eitt smit og fáa í sóttkví. Lítið má þó út af bregða eins og dæmin sanna. Mikilvægt er því að fyrirtæki til að mynda og stofnanir fylgi breyttum reglum og rýni smitvarnir sínar og skerpi á verklagi sé þess þörf. Þá er og mikilvægt öllum að kynna sér reglurnar vel og viðhafa ítrustu varkárni ef haldið er út úr fjórðungnum og inn á höfuðborgarsvæðið til að mynda þar sem atgangur er nú þegar mikill. Þá er rétt að viðhafa aðgát ekki síður þegar til baka kemur. Í því sambandi er og hvatt til þess að smitrakningaappinu verði hlaðið niður af þeim er enn eiga það eftir. https://www.covid.is/app/is
Þá er sem fyrr vakin athygli á mikilvægi þess að virða fjarlægðarmörk, nota grímu í samræmi við reglur og muna handþvottinn og sprittið.
Þrömmum þetta svo saman í þessu skúraveðri og skýlum hvert öðru þar til styttir upp.