25 September 2020 14:11
Einn er nú í einangrun vegna staðfests COVID-19 smits í fjórðungnum og greindist við sýnatöku á landamærum. Smitrakning stendur yfir og samferðamaður er þegar kominn í sóttkví. Á þessu stigi er ekki grunur um að sá sýkti hafi útsett fleiri fyrir smiti.
Tíðindi þessi sýna ljóslega hversu mikilvægt er að við gætum ávallt að okkur í smitvörnum en tökum því að sama skapi af æðruleysi komi smit upp og látum hvergi deigan síga í okkar persónulegu vörnum.
Aðgerðastjórn átti í vikunni samtal við marga þeirra í fjórðungnum sem eiga fulltrúa er þurfa starfs síns vegna eða leiks að fara út af svæðinu á þessum COVID tímum og koma inn á það að nýju. Rætt var við skólameistara framhaldsskóla, fræðslustjóra og íþrótta- og tómstundastjóra sveitarfélaga í fjórðungnum, fulltrúa Austurbrúar og fleiri. Það er mat hennar miðað við upplýsingar er þarna fengust að íbúar séu afar meðvitaðir um nauðsynlegar smitvarnir hvort heldur heima við eða utan svæðis og kappkosta að fylgja þeim í hvívetna.
Í ljósi þess að smit kom upp í fjórðungnum mun aðgerðastjórn fylgja fyrra verklagi og senda tilkynningar daglega meðan mál eru að skýrast.