25 Maí 2020 14:16
36 ökumenn eru voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku í umdæmi lögreglustjórans á Suðurlandi. Einn ökumaður á Höfn var stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis á sama tímabili og 3 ökumenn annarsstaðar á Suðurlandi eru grunaðir um að hafa ekið bifreið um sínum undir áhrifum fíkniefna.
Við erum farin að hafa afskipti af ökumönnum á nagladekkjum og biðjum fólk sem enn er með bíla sína á negldum að snara sér í skipti og spara sér þannig sektargreiðslurnar sem annars er hætt við að komi.
Maður slasaðist í vinnuslysi á byggingastað á Selfossi þann 18. maí þegar hann féll af stæðu mótafleka úr um tveggja metra hæð. Hann var fluttur á sjúkrahús til aðhlynningar.
Slys varð á Hvannadalshnúk þann 19. maí þegar skíðamaður í gönguhóp féll á leið sinni niður af Hnúknum og meiddist á hné. Þyrla LHG flutti hann á sjúkrahús í Reykjavík en samferðamenn viðkomandi höfðu áður flutt hann á „heimagerðum“ börum í línu niður úr bröttustu hlíðum að hentugum stað til að þyrlan gæti athafnað sig við hífingu. Björgunarsveitir sem einnig voru kallaðar til aðstoðuðu síðan við að flytja restina af hópnum niður af jöklinum en þegar aðgerðum þar lauk var farið að frysta og skari að myndast á jöklinum sem varð til þess að fararstjórar mátu öruggara að stefna þeim ekki á tveimur jafnfljótum niður hefðbundna gönguleið.
Þann 23. maí féll maður, sem var við klifur í klettum skammt frá Fagurhólsmýri, um 6 metra með þeim afleiðingum að hann slasaðist á baki. Kallað var eftir aðstoð björgunarsveita og var maðurinn fluttur á sjúkrahús með þyrlu Landhelgisgæslunnar. Frekari upplýsingar um líðan hans liggja ekki fyrir.
Þann 19. maí varð árekstur á Suðurlandsvegi við Hvolsveg þegar vörubifreið var ekið af Hvolsvegi þvert yfir Suðurlandsveg og í veg fyrir fólksbíl sem ekið var til austurs. Ökumaður fólksbílsins hlaut m.a. beinbrot og var fluttur til aðhlynningar á sjúkrahúsi í Reykjavík. Á þessum stað er unnið að breikkun Suðurlandsvegar og því um vinnusvæði, með tilheyrandi hættum, að fara.
Þann 21. maí varð árekstur með rafmagnsvespu og bifreið við Bleikjulæk á Selfossi. Ökumaður rafmagnsvespunnar var fluttur á sjúkrahús á Selfossi til aðhlynningar en meiðsl eru ekki talin alvarleg.
Tvö bifhjólaslys urðu þann 23. maí í umdæminu. Annað þeirra á Biskupstungnabraut við Svínavatn þar sem hjól lenti út af vegi og ökumaður þess kastaðist af því. Hann var fluttur á sjúkrahús en meiðsl hans eru ekki talin alvarleg. Hitt slysið varð þegar ökumaður á leið niður Kamba missti stjórn á hjóli sínu og lenti utan vegar. Hann hlaut skrámur og marbletti af en taldi ekki þörf á að leita læknisaðstoðar að svo stöddu.
Þann 22. maí kom upp eldur í nýreistum vinnubúðum IAV vestan Silfurbergs í Ölfusi. Greiðlega gekk að ráða niðurlögum eldsins en eldsupptök eru ókunn og eru til rannsóknar. Við þá rannsókn aðstoðar tæknideild Lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun en hald var lagt á hluta raflagna nærri eldsupptakastað til framhaldsrannsóknar eftir að rannsóknarvinnu á vettvangi lauk.