22 Apríl 2020 14:54
Starfsemin aðlöguð hratt
Lögreglan er ein af grunnstoðum hvers samfélags og ekkert hik má koma störf hennar við að þjónusta borgarana. Löggæsla telst til samfélagslegra ómissandi innviða sem mega ekki stöðvast vegna lífsbjargandi starfsemi. Fólk treystir á að lögreglan geti komið til aðstoðar ávallt, hratt og örugglega og lögreglan vill standa undir því trausti. Þann 28. febrúar sl. var fyrsta tilfelli Covid-19 greint á Íslandi. Þá var hættustig almannavarna strax virkjað, en það síðan fært upp á neyðarstig þann 6. mars þegar smit fóru að berast milli manna innanlands. Á þeim tæpu tveimur mánuðum, sem liðnir eru frá fyrsta tilfellinu, hefur lögreglan sýnt á afgerandi hátt að hún getur aðlagað starfsemina hratt og örugglega að breyttum aðstæðum.
Eiga hrós skilið
Þótt undirritaður sé sjálfur hluti af lögregluliðinu telur hann sig þess umkominn að hrósa samstarfsfélögum sínum. Lögreglumenn um allt land eiga mikið hrós skilið fyrir samtakamátt, styrk og seiglu við að þjónusta borgana á þeim breyttu og krefjandi tímum sem nú eru. Þar sem tekist hefur að halda uppi góðu þjónustustigi hjá lögreglunni, þrátt fyrir gjörbreyttar samfélagsaðstæður, er óhætt að segja að vel hafi verið að verki staðið. Nú er um að gera að halda úti sama fyrirkomulaginu og þeim góða vinnutakti sem náðst hefur þar til veiran er sigruð.
Björgunarmiðstöðin í Skógarhlíð
Sem dæmi um breytt verklag lögreglu og viðbragðsaðila má nefna að búið er að breyta vöktum í fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra, stjórnstöð Landhelgisgæslunnar og hjá Neyðarlínunni 112, en þessir aðilar sinna neyðarsímsvörun og neyðarviðbragði á landsvísu og eru til húsa í Björgunarmiðstöðinni. Þessar þrjár þjónustueiningar þurfa allar að halda uppi stöðugri starfsemi, sama á hverju gengur. Af þeim sökum er nauðsynlegt að lágmarka hættu á þjónusturofi hjá þeim.
Öryggi lögreglumanna
Fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra er stoðdeild við lögregluumdæmin í landinu og sinnir samræmingarhlutverki við lögregluliðin. Hún forgangsraðar þeim lögregluverkefnum sem koma inn símleiðis í gegnum 112 og annast stýringu alls útkallsliðs lögreglu til verkefna. Hún gætir öryggis lögreglumanna á vettvangi vegna Covid-19. Er það gert með upplýsingamiðlun um hvort á heimili, sem óskar eftir aðstoð, sé einstaklingur í sóttkví eða einangrun þannig að lögreglumenn geti gert viðhlítandi ráðstafanir.
Erfið símtöl
Lögreglumenn fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra taka á móti símtölum fólks sem oft á tíðum er í miklu uppnámi og erfiðleikum. Slík símtöl berast nú sem fyrr m.a. vegna þess aukna andlega álags sem hvílir á landsmönnum. Sum þessara erfiðu símtala taka verulega á og geta setið lengi í starfsmönnum. Innan lögreglunnar er boðið upp á stuðning af ýmsum toga s.s. félagastuðning og sálfræðiþjónustu til að aðstoða lögreglumenn við að vinna úr slíkri reynslu.
Færanleg fjarskiptamiðstöð og neyðarsímsvörun
Snemma í apríl tók lögreglan ákvörðun í góðu samstarfi við Neyðarlínuna 112 um að koma upp búnaði til að minnka hættu á þjónusturofi. Ef á þarf að halda verður hægt að færa starfsemi fjarskiptamiðstöðvar ríkislögreglustjóra og neyðarsímsvörun 112 hratt og örugglega úr Skógarhlíðinni á annan stað. Slíkar aðstæður koma vonandi ekki upp, en hafa þarf vaðið fyrir neðan sig í þessum efnum. Búnaðurinn er staðsettur tímabundið á Hótel Natura. Nú um miðjan apríl hafa lögreglumenn fjarskiptamiðstöðvar og starfsmenn Neyðarlínunnar prufukeyrt búnaðinn, m.a. nýja útgáfu af Tetra fjarskiptaviðmóti. Síðar verða haldnar reglubundnar æfingar þ.a. auðvelt verði að taka búnaðinn fyrirvaralítið í notkun ef aðstæður krefjast. Unnið er að því að finna stöðinni hentuga staðsetningu til framtíðar.
Gylfi Hammer Gylfason,
aðstoðaryfirlögregluþjónn.