4 Apríl 2020 14:55
Engin staðfest smit hafa nú greinst á Austurlandi undanfarna þrjá sólarhringa. Þau eru sjö talsins í heildina. Vel hefur gengið að fá niðurstöðu úr sendum sýnum og flöskuháls sem þar var ekki lengur til staðar.
Áttatíu og einn einstaklingur er í sóttkví. Þeim fækkað um sautján frá í gær þegar þeir voru níutíu og átta.
Skimun á vegum Íslenskrar erfðagreiningar og Heilbrigðisstofnunar Austurlands er nú í gangi. Gert var ráð fyrir þúsund skimunum í upphafi sem fram færu í dag og á morgun. Ákveðið var að bæta einum degi við og skima á mánudag einnig. Fjöldi skimaðra á Austurlandi því fimmtán hundruð í heildina þegar yfir lýkur.
Sýni hafa þegar verið send með flugi til greiningar úr skimun frá í morgun. Fyrstu niðurstaðna er að vænta á mánudag, hugsanlega á morgun ef vel gengur. Þeim ætti svo að vera lokið um eða upp úr miðri næstu viku. Niðurstöður verða kynntar um leið og þær berast.