28 Mars 2020 18:31
Engin ný smit greindust á Austurlandi síðastliðin sólarhring. Sextán sýni voru tekin í gær en niðurstaða margra þeirra ókomin enn. Hún ætti að liggja fyrir á morgun. Staðfest smit því enn fimm talsins. Eftir smitrakningu hefur þeim sem eru í sóttkví fjölgað lítillega, eru 216 en voru 209 í gær.
Skipulag aðgerða vegna COVID-19
Fundur verður hjá Almannavarnanefnd Austurlands næstkomandi mánudag, en nefndin fundar vikulega. Í Almannavarnanefnd situr fulltrúi lögreglu, fulltrúar allra sveitarfélaga á svæðinu sem og fulltrúar slökkviliðanna tveggja í Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði. Þá hafa, vegna COVID-19 veirunnar, fulltrúar frá Heilbrigðisstofnun Austurlands (HSA) mætt á fundi almannavarnanefndar, Rauða krossinum, Landsbjörgu, tollgæslunni, ISAVIA vegna alþjóðaflugvallarins á Egilsstöðum og Smyril Line vegna Norrænu á Seyðisfirði.
Þá fundar aðgerðastjórn nú daglega vegna ástandsins. Þar eiga sæti fulltrúar lögreglu, Heilbrigðisstofnunar Austurlands, sveitarfélaganna tveggja Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs, fyrir hönd félagsþjónustu þeirra sem saman sinna öllu Austurlandi, og fulltrúi Rauða krossins.
Aðrir fulltrúar Almannavarnanefndar, þeir sem ekki sitja í aðgerðastjórn, hafa og aðkomu að fundum hennar með því að bera fram dagskrárefni auk þess að vera upplýst daglega um það sem í gangi er.
Það er mat þeirra sem sitja í Almannavarnanefnd og aðgerðastjórn að skipulagið hafi reynst vel og sé skilvirkt. Þá er rétt að hafa í huga þessu til viðbótar að margir smærri hópar eru starfandi á svæðinu á vegum þessara og fleiri stofnana og félagasamtaka. Allir hafa þeir sama markmið að leiðarljósi, að aðstoða íbúa sem þess þurfa og koma okkur þannig í gegnum þetta verkefni saman.