3 Mars 2020 10:48
Þrátt fyrir risjótta tíð virðast menn enn flýta sér á leið sinni um þjóðvegi umdæmisins. 24 ökumenn voru í liðinni viku kærðir fyrir að aka of hratt. Fjórir þessara ökumanna reyndust vera á meira en 130 km/klst hraða þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst Þrír þessara 24 eru kærðir fyrir að aka of hratt innan þéttbýlismarka á Selfossi.
Skráningarmerki fjögurra ökutækja voru tekin af og notkun ökutækjanna bönnuð þegar í ljós kom að þau voru ekki tryggð lögboðinni ökutækjatryggingu. Þá voru skráningarnúmer fólksbifreiðar fjarlægð þegar í ljós kom að sumarhjólbarðar sem hún var búin voru allir mjög slitnir og m.a. einn þeirra inn í striga. Þá hafði ökumaður hennar ekki hirt um að skipta um ljósaperu í ljósi sem hann var áminntur um að gera við afskipti af honum nokkru áður.
Höfð voru afskipti af ökumanni bifreiðar sem dró kerru með annarri bifreið á. Sú bifreið var óbundin á kerrunni og taldi ökumaðurinn nægjanlegt að hún væri í handbremsu til að tryggja að hún færi ekki út af kerrunni. Það telst hinsvegar ekki nægjanlegur frágangur og fékk viðkomandi sekt fyrir brot sitt sem og að hafa ekki réttindi til að aka bifreið sem dregur kerru með þessa miklu þyngd.
Einn er grunaður um að hafa ekið undir áhrifum áfengis og annar um að aka undir áhrifum fíkniefna.
Tveir eru kærðir fyrir að flytja farþega án þess að vera með gilt rekstrarleyfi til þess.
Veður og færð skipta miklu máli í umferðinni. Líklega eru það stærstu orsakaþættir þess að 28 umferðarslys eru tilkynnt til lögreglu á tímabilinu en einungis eitt þeirra með meiðslum en þar er um að ræða atvik þegar fólksflutningabíll fór út af veginum vestan Mosfellsheiðar og valt á hliðina þann 25. febrúar s.l. 24 voru í bílnum og þrír þeirra með minniháttar meiðsl. Þeir héldu hinsvegar allir áfram för sinni eftir skoðun á vettvangi í bíl sem viðkomandi fyrirtæki sendi eftir þeim.
Lögreglumenn frá Höfn vísuðu fólki í land af jökum sem það var að príla á á Jökulsárlóni þann 26. Febrúar. Um 30 manns voru komnir út á ísinn og enganvegin áttuð á þeirri hættu sem þeir settu sig í með athæfinu.
Lögreglumenn í Vík vísuðu tveimur drengjum undir aldri út af vínveitingastað. Veitingamaðurinn hafði reynt að koma þeim út sjálfur en án árangurs. Drengirnir sagðir hafa verið að reyna að fá gesti staðarins til að kaupa áfengi fyrir sig.