28 Febrúar 2020 10:12
Um kl. 17:00 í gær fékk lögregla tilkynningu um að bifreið væri föst í snjó á brúnni yfir Jökulsá á Sólheimasandi og stöðvaði alla umferð um brúna. Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang var orðin röð bifreiða beggja vegna við og afleitt veður með skafbyl og hlóðst snjór að röðinni. Þegar var hafist handa við að greiða úr flækjunni en á endanum höfðu björgunaraðilar flutt fólk úr um það bil 45 bifreiðum í húsaskjól, ýmist að Skógum eða Heimalandi, þar sem Rkí opnaði fjöldahjálparstöð eða í náttstað þarna nærri ef fólk átti bókaða gistingu þar. Við verkið voru notaðir bílar björgunarsveita og trukkur frá fyrirtækinu Arcanum. Snjóbíll með tönn var fluttur á vettvang í nótt til að moka frá bílaröðinni og greiða þannig fyrir opnun vegarins en hann er ennþá lokaður þegar þetta er skrifað.
Hér á eftir fer hluti af samantekt varðstjóra á Hvolsvelli þegar menn voru að fara í hvíld klukkan rúmlega 5 í morgun:
Í það heila voru hátt í hundrað og fimmtíu manns fastir á vegum undir Eyjafjöllum og þá aðallega við Jökulsá á Sólheimasandi. Björgunarsveitir frá svæði 16 hófu aðgerðir og síðar var bætt við tækjum af svæði 3. Hinsvegar komust engar bjargir austur fyrir Hemlu frá því um tíu leytið í gærkvöldi. Lentu björgunarsveitarbifreiðar sem voru á leið austur í því að þær biluðu eða þurftu að sinna öðrum verkefnum. Mjög blint var frá Hellu og austur og sást ekki fram fyrir vélarhlífar bifreiðanna. Um klukkan eitt fór að rofa til til á vettvangi og þá var fyrst hægt að flytja fólk frá vettvangi og var fólk í fyrstu flutt á Hótel Skógafoss þar sem fólk komst í hlýtt húsnæði, komst á salerni og gat það fengið sér súpu. Þegar búið var að flytja allt fólkið að Hótel Skógafoss þá var farið í það að koma fólki fyrir í gistingu. Um 38 manns fór í gistingu í vistinni á Hótel Eddu, einhverjir áttu pantaða gistingu á gististöðum undir Eyjafjöllum og var það flutt þangað (alls 9 manns), og þá var um 90 manns fór að Heimalandi þar sem opnuð var fjöldahjálparstöð þar sem um 60 dýnur voru fyrir fólkið. Fjórir ætluðu að gista í bifreiðunum á vettvangi, en það var par í camper og tveir Íslendingar, annar á vörubifreið og einn Íslendingur í fólksbifreið.
Af þeim 90 sem fóru að Heimalandi er 20 manns í rútu og stefnir ökumaður rútunnar á að halda áfram vestur þegar opnað verður fyrir umferð. Um 45 bifreiðar voru skildar eftir á vettvangi og voru eitthvað af bifreiðunum orðnar rafmagnslausar eða bilaðar.
Fenginn var stór trukkur frá Arcanum til að ferja stóran hluta af fólkinu af vettvangi í nótt og er sá trukkur staddur að Heimalandi og er ætlað að nota hann til að ferja ökumenn bifreiðanna að bifreiðunum núna í fyrramálið og var gengið út frá því við fólkið að það gæti verið um klukkan 8 í fyrramálið. Þá ætlar björgunarsveitarbifreið frá björgunarsveitinni Bróðurhönd að sækja þá sem voru á öðrum gististöðum en Heimalandi eða Skógum í fyrramálið.
Að Heimalandi eru tveir starfsmenn frá Rauða krossinum á Hvolsvelli en enginn er hjá fólkinu að Skógum.
Snjóbíll frá Árborg komst austur að Jökulsá um klukkan 4 í nótt og ætla menn á snjóbílnum sem og menn á Árborg 3 að vinna við það að reyna að ryðja frá bifreiðunum fram á morgun. Þeir ætla að vera á vettvangi þegar ökumenn bifreiðanna verða fluttir að bifreiðunum í fyrramálið.
Nokkur önnur verkefni komu upp annars staðar á svæðinu í nótt en engin stór verkefni. Þar var meðal annars einhverjir sem voru fastir, lentir útaf, aðstoð við að komast milli húsa og þá fór öryggiskerfi í gang í húsi á Rangárvöllum.