7 Ágúst 2006 12:00
Lögreglan í umdæmi sýslumannsins á Seyðisfirði handtók í nótt 14 einstaklinga sem farið höfðu inn á vinnusvæði við Kárahnjúkavirkjun og valdið þar truflun á starfsemi framkvæmdaaðila. Framkvæmaaðilar hafa kært athæfið og verða málin rannsökuð hjá lögreglunni á Egilsstöðum, ásamt fyrri málum af sama toga. Hinir handteknu voru færðir á lögreglustöðina á Egilsstöðum en hafa nú verið látnir lausir.
Eins og komið hefur fram í fréttum hafa mótmælendur Kárahnjúkavirkjunar slegið upp tjaldbúðum á virkjanasvæðinu og sótt úr þeim inn á lokuð vinnusvæði í þeim tilgangi að valda röskun á lögmætri starfsemi. Lögreglunni hefur borist beiðni frá umráðaaðila landsins sem mótmælendur hafa hafst við á undanfarið um að þeir verði fjarlægðir af svæðinu. Á grundvelli framangreindra ítrekaðra ætlaðra ólögmætra athafna mótmælendanna, og með vísan til 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 hefur lögreglustjóri ákveðið að nýta sér heimildir í nefndri lagagrein og fyrirskipað brottflutning fólksins af svæðinu.
Til nánari útskýringar á ofangreindri heimild er vísað til greinargerðar með lögreglulögunum þar sem m.a. segir: .. Með því er átt við þá óskráðu reglu að lögreglan hafi almenna venjumyndaða heimild innan vissra marka til að grípa til nauðsynlegra ráðstafana til þess að halda uppi lögum og reglu í landinu. Það er mat nefndarinnar sem samið hefur þetta frumvarp að rétt sé að lögfesta þessar heimildir lögreglu. Byggist sú afstaða á svonefndri lögmætisreglu, þ.e. þeirri reglu að hið opinbera, lögreglan sem aðrir, þurfi að hafa heimild í lögum til afskipta af borgurunum gegn vilja þeirra.
Sýslumaðurinn á Seyðisfirði,
Egilsstöðum, 7. ágúst 2006
Lárus Bjarnason