10 Júní 2019 14:11
Ekki eru gerðar athugasemdir við að ágreiningur kunni að vera um ráðstöfun þeirra fjármuna sem veitt er til löggæslu úr ríkissjóði. Hins vegar er því alfarið hafnað að greiningardeild ríkislögreglustjóra vinni ekki óháða áhættumatsskýrslu. Embættið fer ekki með rannsókn á skipulagðri brotastarfsemi. Það gera einstök embætti og ríkislögreglustjóri hefur ekki óskað eftir neinum fjárveitingum til embættisins vegna þess. Hins vegar hefur ríkislögreglustjóri lagt á það áherslu að efla þurfi lögregluna til að takast á við skipulagða brotastarfsemi auk þess að stjórnvöld grípi til almennra aðgerða. Þá hefur verið vakin athygli á þörf á deild á landsvísu sem sinni frumkvæðisrannsóknum gegn skipulögðum glæpasamtökum. Er í því sambandi velt upp hvort ekki væri rétt að fela embætti Héraðssaksóknara að starfrækja slíka deild. Embættið starfar á landsvísu og fer með rannsóknir peningaþvættismála og starfrækir skrifstofu fjármálagreininga lögreglu.
Varðandi þá gagnrýni á skýrsluna að ekki sé nægilega fjallað um íslenska glæpahópa þá er hér um að ræða skýrslu sem unnin er reglulega. Hæg heimatök eru fyrir viðkomandi að lesa síðustu skýrslu greiningardeildar og umfjöllunina um íslenska glæpahópa í henni. Skýrslan í ár leggur áherslu á erlenda glæpahópa og þá vaxandi ógn sem frá þeim stafar.
Í samræmi við löggæsluáætlun fyrir árin 2019 til 2023 er niðurstaða áhættumatsins sett fram í áhættuflokk. Niðurstaðan er að áhættan falli í hæsta flokk sem eins og sjá má í athugasemdum með löggæsluáætluninni „gífurleg áhætta“. Við framsetningu áhættumatsins er því farið eftir því líkani sem mælt er fyrir um í löggæsluáætluninni. Hins vegar er skýrt tekið fram í upphafi skýrslunnar að íslenskt samfélag teljist mjög öruggt.
Varðandi umfjöllun um sérsveitina þá er alrangt að sérsveitarmenn hafi verið færðir úr starfi gegn vilja þeirra eða þrýst á þá að flytja í aðrar deildir. Varðandi starfsstöð á Akureyri hefur verið leitað eftir því hvort e.h. vildu flytjast norður. Tveir sérsveitarmenn með starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu óskuðu eftir því að starfa á Norðurlandi á sínum tíma og störfuðu þar í mislangan tíma. Þeir óskuðu síðan eftir því að flytjast suður aftur og var orðið við því. Það var því reynt að bregðast við fækkuninni á Akureyri.
Hvað varðar faglegar forsendur þá hefur búnaður og þjálfun almennrar lögreglu verið stóraukinn um allt land síðustu ár. Það er hlutverk almennrar lögreglu að annast fyrstu viðbrögð og tryggja vettvang þar til sérsveit mætir á staðinn.
Við endurskoðun á viðbúnaðarskipulagi lögreglunnar 2014 til 2015 og forgangsröðun aukinna fjárveitinga til lögreglu síðustu árin hefur það verið eitt af áhersluatriðunum að efla búnað og þjálfun almennrar lögreglu um allt land.
Ef það væri niðurstaðan að staðsetja þurfi sérsveitarmenn á landsbyggðinni í stað þess að efla almennu lögregluna með búnaði og þjálfun, þá vaknar sú spurning hvort það ætti þá ekki að vera sérsveitarmenn staðsettir á Snæfellsnesi, Ísafirði, Egilsstöðum eða Hornafirði. Ef sérsveitarmönnum yrði dreift um landið með þeim hætti þá er ekki lengur til sérsveit heldur eingöngu betur þjálfuð almenn lögregla á þeim stöðum en ekki annars staðar á landinu.
Loks skal áréttað að ekki hefur verið ákveðið að leggja niður starfsstöð sérsveitar ríkislögreglustjóra á Akureyri. Ef e.h. sérsveitarmanna með starfsstöð á höfuðborgarsvæðinu óskar eftir því að flytjast norður þá verður tekið jákvætt í það.