1 Mars 2005 12:00

Í tengslum við vopnalög nr. 16/1998 gefur ríkislögreglustjóri út 21 tegund leyfa, sjá töflu yfir útgefin leyfi í viðauka 2 í ársskýrslu ríkislögreglustjórans 2003.  Um er að ræða 13 tegundir starfsleyfa, fjórar tegundir leyfa til innflutnings á skotvopnum og skotfærum, eina tegund leyfa sem varðar flutning á vopnum milli landa um Ísland og  þrjár tegundir leyfa er varða útflutning skotvopna.   Níu tegundir þessara leyfa eru sendar lögreglustjórum til afhendingar og innheimtu gjalds eftir útgáfu þeirra, en 12 eru afhent eða send umsækjendum beint frá embætti ríkislögreglustjóra.

           

Í 6. gr. vopnalaga nr. 16/1998 eru heimildarákvæði fyrir ríkislögreglustjóra til að fela lögreglustjórum útgáfu tímabundinna útflutningsleyfa samkvæmt greininni.  Hér er um að ræða þrenns konar tegundir leyfa fyrir aðila hér á landi sem fara með skotvopn sín og keppnisboga til veiða og keppni erlendis og aðila sem fara með eftirlíkingar af víkingaaldarvopnum á svokallaðar víkingahátíðir erlendis. Þessi leyfi eru tiltölulega fá og einföld í útgáfu, en á árinu 2004 voru gefin út 87 leyfi til að flytja tímabundið út skotvopn og 19 leyfi til að flytja út önnur vopn. 

           

Með vísan til heimildar í 6. gr. vopnalaga nr. 16/1998, að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið, hefur ríkislögreglustjóri ákveðið að fela lögreglustjórum að gefa þessi leyfi út frá og með 1. apríl 2005. 

Í 5. gr. vopnalaga nr. 16/1998 er jafnframt að finna heimild til handa ríkislögreglustjóra til að fela lögreglustjórum að veita innflutningsleyfi.  Í athugasemdum með 5. gr. frumvarpsins segir m.a. um þetta efni: „Þá er lagt til að ríkislögreglustjóri geti falið lögreglustjórum að veita slík leyfi. Hefur dómsmálaráðherra gert það varðandi innflutning skotelda en samkvæmt gildandi reglugerð er yfirumsjón þess í höndum lögreglustjórans í Reykjavík“.  Undir þetta falla fjórar tegundir innflutningsleyfa sem ríkislögreglustjóri hefur gefið út í tengslum við vopn sem falla undir ákvæði vopnalaga.  Innflutningsleyfi þessi eru eftirfarandi:  Innflutnings- og skammtímaleyfi vegna vopna fyrir útlendinga (111 á árinu 2004) auk leyfa fyrir útlendinga til að flytja vopn á milli landa um Ísland (7 á árinu 2004),  alþjóðleg innflutningsleyfi vegna vopna og skotfæra fyrir Íslendinga til eigin nota (113 á árinu 2004) og alþjóðleg innflutningsleyfi fyrir skotvopn og skotfæri til endursölu sem eru einstakar pantanir (162 á árinu 2004). 

           

Með vísan til heimildar í 5. gr. vopnalaga nr. 16/1998, að höfðu samráði við dómsmálaráðuneytið, hefur ríkislögreglustjóri jafnframt ákveðið að fela lögreglustjóranum í Reykjavík að gefa þessi leyfi út frá og með 1. apríl 2005. 

Með þessu fyrirkomulagi verður eftir hjá ríkislögreglustjóra útgáfa starfsleyfa samkvæmt vopnalögum svo og umsagnir um undanþáguvopn, rökstuðningur vegna synjana ofl.  Heimild til lögreglustjórans í Reykjavík vegna innflutningsleyfa er bundin við vopn sem leyfð eru til almennrar notkunar og því lagt fyrir hann að leita samþykkis ríkislögreglustjóra þegar sótt er um heimild til að eignast svokölluð undanþáguvopn, en það eru vopn sem ekki eru leyfð til almennrar notkunar.  Með þessu móti skapast meira svigrúm fyrir ríkislögreglustjóra til að hafa með höndum eftirlit og samræmingu á afgreiðslu mála samkvæmt vopnalögum og einungis starfsleyfi gefin út af ríkislögreglustjóra, en ekki einstök leyfi til inn- og útflutnings eins og verið hefur. 

Sum þessara starfsleyfa eru í dag afhent eða send umsækjendum beint frá embætti ríkislögreglustjóra, en önnur, sem gjald hefur verið innheimt fyrir, hafa verið send lögreglustjórum til afhendingar og innheimtu gjalds.  Ríkislögreglustjóri hyggst senda lögreglustjórum öll starfsleyfi sem hann gefur út til afhendingar og innheimtu gjalds.

Markmiðið ofangreindra breytinga er að gera viðskiptamönnum kleift að sækja þjónustu á sama stað, hvað varðar útgáfu leyfa fyrir skotvopnum sem leyfð eru til almennrar notkunar samkvæmt vopnlögum, m.a. með því að færa hluta þessara leyfa heim í hérað.

Reykjavík 1. mars 2005

Ríkislögreglustjórinn

Svið 3    Áfengis- og vopnalagadeild