28 Febrúar 2019 13:02
Þann 28. febrúar 2019
Lögreglan á Austurlandi hefur á undanförnum mánuðum rannsakað mál er varðar innflutning á fíkniefnum til landsins. Vegna þessa hafa efni verið haldlögð á tollasvæðinu á Seyðisfirði í tveimur aðgerðum í janúar og febrúar, einnig voru efni haldlögð við húsleit hér á landi. Í tengslum við nefnd mál hafa verið haldlögð vel á annan tug kílóa af hassi.
Málið er talið tengjast öðru þar sem haldlögð voru tæp sex kíló af hassi af lögreglunni á Suðurlandi. Samtals hafa því verið haldlögð vel yfir tuttugu kíló af hassi sem talin eru tilheyra sömu sendingu sem kom hingað til lands.
Þær haldlagningar sem fram fóru á tollasvæðinu á Seyðisfirði voru gerðar er aðilar reyndu að fara með fíkniefnin úr landi eftir að þeim hafði áður verið komið hingað til lands. Lögreglan hefur grun um með hvað hætti efnin komu til landsins og hvert þeim var ætlað að fara.
Vegna rannsóknar máls var erlendur karlmaður úrskurður í fjórtán daga gæsluvarðhald í byrjun janúar og fjögurra vikna farbann í framhaldi þess sem var framlengt í síðustu viku um átta vikur til viðbótar. Annar erlendur karlmaður var úrskurðaður í fjórtán daga gæsluvarðhald í febrúar sem er nú að renna út og hefur verið gerð krafa um að sá aðili sæti farbanni í átta vikur og er úrskurðar að vænta um það síðar í dag.
Málið hefur verið unnið í samstarfi við tollgæsluna auk þess sem samstarf hefur verið við dönsk lögregluyfirvöld.
Rannsókn máls er langt komin og mun ljúka á næstu vikum.
Ekki verða veittar nánari upplýsingar um málið að svo komnu.