28 Júlí 2004 12:00
Ríkislögreglustjórinn mun um verslunarmannahelgina halda úti öflugri löggæslu til aðstoðar lögreglustjórunum.
Lögreglustjórar bera ábyrgð á að halda úti löggæslu, hver í sínu umdæmi. Í því felst m.a. almenn löggæsla, eftirlit með fíkniefnum og umferðarlöggæsla. Þá verður fjölmennt lögreglulið í tengslum við útisamkomur. Til að efla löggæsluna enn frekar mun ríkislögreglustjórinn, eins og undanfarin ár, veita lögreglustjórunum aðstoð varðandi fíkniefnalöggæslu, umferðareftirliti og við rannsókn alvarlegra brota.
Umferðardeild ríkislögreglustjóra mun halda úti merktum og ómerktum bifreiðum vegna umferðareftirlits. Ómerktu bifreiðarnar eru búnar myndavélabúnaði til að taka myndir vegna hraðaaksturs. Ennfremur verður bifreið sem er sérstaklega útbúin til að taka öndunarsýni í málum sem varða ölvun við akstur og hefur hún einnig búnað til vettvangsstjórnstöðvar.
Fíkniefnastofa ríkislögreglustjóra mun veita lögreglustjórunum aðstoð í fíkniefnamálum og hefur í því skyni fengið til liðs við sig fimm fíkniefnalögreglumenn frá lögreglustjóranum í Reykjavík og lögreglustjóranum í Hafnarfirði, auk tollvarða frá tollstjóranum í Reykjavík sem munu veita aðstoð með fíkniefnaleitarhundum. Þeir munu skipta með sér verkum og ferðast um landið, tveir og tveir saman, og koma við á útihátíðum og að öðru leyti þar sem þeirra er þörf hverju sinni. Þetta er aðeins viðbót við löggæslu lögreglustjóranna sem víða hafa komið sér upp fíkniefnaleitarhundi.
Þegar margir yfirgefa heimili sín eins og vænta má um þessa helgi er ástæða til að minna fólk á að ganga tryggilega frá öllu áður en lagt er af stað. En það er rétt að hugleiða hvernig hægt er að láta líta þannig út sem heimilið sé ekki yfirgefið eða mannlaust. Lögreglan á næstu lögreglustöð veitir upplýsingar um þessi atriði og gefur góð ráð sem oft koma að notum. Lögreglan verður sem fyrr með almennt eftirlit í lögsagnarumdæmunum og munu lögregluliðin einnig nota ómerkta bíla við þetta eftirlit.
Ríkislögreglustjórinn óskar öllum góðrar verslunarmannahelgar og hvetur ökumenn sérstaklega til að sýna varúð og tillitsemi í umferðinni.