7 Apríl 2004 12:00
Nýlega kom út skýrsla þar sem kynntar eru niðurstöður úr rannsókn á aksturshegðun meðal nær 2.000 nemenda í framhaldsskólum og Háskóla Íslands á aldrinum 17 til 30 ára. Rannsóknin, sem var framkvæmd haustið 2003, er unnin af Hauki Frey Gylfasyni, Rannveigu Þórisdóttur og Marius Peersen í samstarfi við Rannum og embætti ríkislögreglustjóra.
Í skýrslunni kemur meðal annars fram að næstum 67% ökumanna telja sig vera betri en meðalökumanninn. Karlar telja sig vera betri ökumenn en konur og elstu ökumennirnir telja sig vera aðeins betri ökumenn en þeir yngstu. Ekkert bendir til þess að reynslulitlir ökumenn telji sig vera betri ökumenn en þeir sem hafa meiri reynslu.
Ef mat þátttakenda á ökuhæfni sinni er skoðað eftir því hvort þeir hafa valdið slysi eða ekki kemur í ljós að þeir sem valdið hafa slysi telja sig ekki jafngóða ökumenn og þeir sem ekki hafa valdið slysi, að teknu tilliti til kyns. Það sem vekur athygli er að ökumenn sem segjast hafa ekið drukknir telja sig ekki vera verri ökumenn en þeir sem ekki hafa ekið drukknir, að teknu tilliti til kyns. Einnig telja þeir sem ekið hafa á móti rauðu ljósi sig vera betri ökumenn en þeir sem ekki hafa ekið á móti rauðu ljósi, að teknu tilliti til kyns.
Þegar þátttakendur voru spurðir, hvort væri algengara að karl eða kona keyrði þegar þeir voru farþegar, sögðust 72% þeirra að algengara væri að karl keyrði. Næstum 90% karla sögðu algengara að karl keyrði en 57% kvenna. Þetta svipar til niðurstaðna úr hraðamælingum en þar voru 68% ökumanna karlar og hlutfallið breyttist lítið eftir því hvort ökumaður var einn eða með farþega. Þessar niðurstöður gefa vísbendingar um að karlmenn aki oftar bíl en konur.
Hafa ber í huga við túlkun niðurstaðna að úrtak framhaldsskólanema er ekki valið af tilviljun og niðurstöður því vísbendingar sem gefa ekki færi á alhæfingu um unga ökumenn.
Skýrsluna má nálgast hér >>