5 Desember 2003 12:00

Frá Umferðardeild ríkislögreglustjórans: 

Nú fer í hönd sá tími ársins sem lögreglumenn um allt land auka eftirlit með ökumönnum með tilliti til ölvunaraksturs.  Umferðardeild ríkislögreglustjórans hefur yfir að ráða lögreglufbifreið sem er sérstaklega útbúin tækjum til töku öndunarsýna og mælinga á áfengi í útöndunarlofti.   Verður deildin með þessi tæki að störfum næstu daga og til aðstoðar við lögregluliðin um allt land. 

Það er jákvæð sú þróun sem hefur átt sér stað undanfarin ár varðandi fjölda afskipta af ökumönnum, en þeim hefur fækkað sem grunaðir eru um ölvun við akstur.  Á árinu 2000 voru brotin 2.482, árið 2001 voru þau 2.081, en á síðasta ári voru þau 1.859.  Þegar þessar tölur eru skoðaðar skulum við hafa hugfast að í mörgum tilfellum urðu umferðarslys sem ölvaðir ökumenn voru aðilar að. 

Gætum að því að viðurlög við fyrsta broti, þegar ekið er undir áhrifum áfengis, er svipting ökuréttinda í 2-12 mánuði og sektir allt að kr. 100.000  Neiti ökumaður að gefa öndunarsýni er svipting ökuréttinda að lágmarki 12 mánuðir.  Ef brot er ítrekað eða ölvaður ökumaður veldur umferðarslysi getur refsing orðið mun þyngri.

Það er von umferðardeildar ríkislögreglustjórans að ökumenn fari sér hægt og með varúð á aðventunni og njóti þess sem framundan er.  Að lokum er minnt á heilræði sem alltaf á við að “eftir einn ei aki neinn”.