14 Nóvember 2003 12:00
Næstkomandi mánudag tekur lögreglan á Blönduósi í notkun sérbúna lögreglubifreið fyrir umferðareftirlit þar sem samskipti lögreglu og ökumanns verða hljóðrituð og fest á myndband sem nota má sem sönnunargögn í máli.
Ríkislögreglustjóri hefur fest kaup á búnaði sem mælir ökuhraða, skráir dagsetningu og tíma brots og hljóðritar og festir á myndband samskipti lögreglumanns við ökumann sem mældur er í hraðakstri. Tvær lögreglubifreiðar verða með þennan búnað fyrst um sinn.
Að undanförnu hefur ríkislögreglustjóri lánað lögregluliðunum í Árnessýslu og í Keflavík þessar bifreiðar til umferðareftirlits. Nú er komið að Blönduósi að fá aðra bifreiðina til umráða tímabundið. Ríkislögreglustjóri greiðir kostnað vegna notkunar bifreiðanna tveggja sem eru í eigu umferðardeildar ríkislögreglustjóra.
Með þeirri nýjung sem hér er sagt frá má gera ráð fyrir því að í auknum mæli verði einn lögreglumaður við umferðareftirlit.
Með því að smella hér (www.kustomsignals.com) er hægt að skoða þessi nýju tæki.