3 Júlí 2003 12:00
Nú líður að fyrstu helginni í júlímánuði sem er gjarnan ein af mestu umferðarhelgum sumrarsins um allt land. Eins og venjulega má búast við mikilli umferð frá Stór-Reykjavíkursvæðinu út á landsbyggðina og aftur til baka í helgarlok. Umferðardeild ríkislögreglustjórans verður lögreglustjórunum á Suður- og Vesturlandi til aðstoðar þessa daga, með sérstaklega útbúnar bifreiðar sem ýmist eru merktar lögreglunni eða ómerktar. Að þessu sinni munu lögreglumenn fylgjast með ökuhraða og beltanotkun, framúrakstri og ölvunarakstri, auk almenns eftirlits, en sérstaklega verður fylgst með bifreiðum sem draga tjaldvagna, fellihýsi og aðra eftirvagna. Það virðist vera að ökumenn geri sér ekki nægjanlega grein fyrir þeim reglum og takmörkunum sem í gildi er um þessi tæki og umgengni við þau og bifreiðina. Helst skal nefna að ökumenn eiga að búa bifreið með framlengingu á hliðarspeglum ef tengitækið skyggir á spegla bifreiðarinnar þannig að útsýni sé tryggt aftur fyrir tækið sem dregið er. Bifreiðin sem dregur skal vera skráð til þess að draga eftirvagn og á þjóðvegum er hámarkshraði 80 km/klst þegar eftirvagn er dreginn. Ökumenn þurfa því að vera mjög meðvitaðir um að gefa annari umferð færi á að aka framúr án hættu fyrir aðra vegfarendur.
Mjög góðar og ýtarlegri upplýsingar til ökumanna sem draga eftirvagn er að finna á heimasíðu umferðarstofu á slóðinni: http://www.us.is/article.asp?catID=474&ArtId=469
Það er von okkar hjá umferðardeild ríkislögreglustjórans að ökumenn gefi sér nægan tíma til að komast á milli staða og sýni öðrum almenna tillitssemi í umferðinni svo helgin megi verða öllum ánægjuleg og slysalaus. Góða ferð.