30 Júlí 2003 12:00
Ríkislögreglustjórinn hefur ákveðið að auka löggæslu um verslunarmannahelgina eins og undanfarin ár og verður lögreglan um allt land með mikinn viðbúnað þessa daga. Umferðardeild ríkislögreglustjórans verður lögregluliðum á landsbyggðinni til aðstoðar samkvæmt ákveðnu skipulagi og þar sem umferð verður mest. Fíkniefnalöggæsla af hálfu ríkislögreglustjórans verður aukin verulega. Þá verður fjölmennt lögreglulið í tengslum við útisamkomur.
Umferðardeildin verður aðallega með eftirlit á vegum á Suðurlandi og Norðurlandi og einnig á Vestfjörðum, en allt með þeim fyrirvara hvar umferð verður mest. Verða notaðar merktar og ómerktar lögreglubifreiðar við umferðareftirlitið sem búnar eru hraðamyndavélum. Sérstök bifreið verður á vegum ríkislögreglustjórans útbúin öndunarmæli sem notaður er þegar ökumenn eru grunaðir um ölvunarakstur. Þá heldur Vegagerðin úti eftirliti í samvinnu við ríkislögreglustjórann.
Lögreglan í Reykjavík verður með umferðareftirlit á vegum út úr borginni í samvinnu við lögregluliðin á Akranesi, í Borgarnesi og á Snæfellsnesi annars vegar og lögregluna á Selfossi hins vegar. Lögregluliðin annars staðar á landinu hafa einnig með sér samstarf þessa helgi, svo sem á Vestfjörðum, af hálfu lögreglunnar á Ísafirði, í Bolungarvík, á Patreksfirði, Hólmavík og í Búðardal, þar sem megin áhersla er lögð á umferðareftirlit. Lögreglan mun fylgjast sérstaklega með hraðakstri og ölvunarakstri en einnig ökutækjum sem draga tjaldvagna og fellihýsi og hvernig búnaði ökutækjanna og eftirvagna er háttað. Fíkniefnaeftirlit verður hert verulega um verslunarmannahelgina og hefur ríkislögreglustjórinn, með stuðningi dómsmálaráðuneytis, kallað til starfa hóp lögreglumanna, meðal annars úr fíkniefnadeild, og fengið til liðs við lögregluna starfsmenn tollstjórans í Reykjavík sem stjórna sérstaklega þjálfuðum leitarhundum. Þessi hópur skiptir með sér verkum og fer um allt land þar sem útisamkomur verða og fylgist með ferðalöngum frá Þorlákshöfn í Árnessýslu og Bakkaflugvelli í Rangárvallasýslu til Vestmannaeyja, í samstarfi við lögregluna á Selfossi, Hvolsvelli og í Vestmannaeyjum. Lögreglan í Reykjavík verður með fíkniefnahunda við eftirlit – meðal annars þar sem fólk safnast saman til að ferðast með flugi og rútum á samkomustaðina. Þetta sérstaka eftirlit er þegar hafið.
Þegar margir yfirgefa heimili sín eins og vænta má um þessa helgi er ástæða til að minna fólk á að ganga tryggilega frá öllu áður en lagt er af stað. En það er rétt að hugleiða hvernig hægt er að láta líta þannig út sem heimilið sé ekki yfirgefið eða mannlaust. Lögreglan á næstu lögreglustöð veitir upplýsingar um þessi atriði og gefur góð ráð sem oft koma að notum. Lögreglan verður sem fyrr með almennt eftirlit í lögsagnarumdæmunum og munu lögregluliðin einnig nota ómerkta bíla við þetta eftirlit.