29 Nóvember 2017 14:31
21 ökumaður var kærður fyrir að aka bifreið sinni of hratt í liðinni viku. Að þessu sinni er þó engin sem mælist á meiri hraða en 130 km/klst en nokkuð er um liðið síðan við höfum sloppið með slíkt. Aðstæður til aksturs í vikunni voru ekki alltaf til að hrópa húrra fyrir og fullt tilefni til að hvetja fólk til að aka varlega, í samræmi við aðstæður og að hafa ökutæki sín búin til vetraraksturs.
9 umferðaróhöpp eru skráð í umdæminu þar af eitt þar sem alvarleg slys urðu á þremur einstaklingum. Það slys varð á gatnamótum Biskupstungnabrautar og Grafningsvegar þann 20. nóvember s.l. þar sem árekstur varð með tveimur bifreiðum sem ekið var í gagnstæðar áttir. Ökumaður bifreiðar sem ekið var norður Biskupstungabraut virðist hafa ætlað að aka vinstra megin fram úr tveimur bifreiðum sem voru kyrrstæðar á akrein hans og lenti þá framan á bifreið sem kom á móti honum. Ökumaður fremri kyrrstæðu bifreiðarinnar hugðst beygja norður Grafningsveg þegar það væri unnt vegna umferðar sem kom úr gagnstæðri átt. 3 voru fluttir slasaðir með þyrlu LHG af vettvangi. Á vettvang komu m.a. fulltrúar Rannsóknarnefndar samgönguslysa og að auki voru kallaðir til rannsóknarlögreglumenn frá tæknideild Lögreglu höfuðborgarsvæðisins til vettvangsrannsóknar.
Skráningarnúmer voru tekin af 4 ökutækjum sem reyndust ótryggð í umferðinni.
2 mál komu upp er varða vörslu fíkniefna. Í öðru tilfellinu haldlögðu fangaverðir á Litla Hrauni rúmlega 200 skammta af ætluðu LSD sem fannst við leit í klefa hjá afplánunarfanga. Málið er til rannsóknar varsla þessa mikla magns af efninu getur varðað allt að árs fangelsi. Í hinu tilfellinu fundust kannabis efni á farþega í ökutæki sem lenti í umferðaróhappi. Mikil lykt sem fannst í bifreiðinni vakti athygli lögreglumanna og þegar gengið var á farþega í bifreiðinni framvísaði hann efninu