10 Október 2017 21:45
Það eru 71 mál skráð í málaskrá lögreglunnar á Austurlandi þessa vikuna.
Einn aðili var kærður fyrir brot á lögum um vernd, friðun og veiðar á viltum fuglum og viltum spendýrum og lagði lögreglan hald á gæs og byssu viðkomandi.
Þá kom fiskiskip til Vopnafjarðar með slasaðan sjómann en aðilinn var með áverka á baki, öxl og handlegg.
Bílvelta varð á Þjóðvegi 1 við Biskupháls sem er skammt austan við Jökulsá á Fjöllum en þar voru útlendingar á ferð. Engin slys urðu á fólki en bifreiðin er talsvert skemmd og ekki ökufær. Þess ber að geta að snjóhraglandi var á umræddum stað og hálka.
Önnur bílvelta varð á Hringvegi nokkru áður en komið er að afleggjaranum til Vopnafjarðar en þar voru erlendir ferðamenn frá Singapúr á ferð. Engin slys urðu á fólki.
Þá varð bílvelta á Norðfjarðarvegi á Fagradal en ökumaður bifreiðarinnar var fluttur á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað til aðhlynningar. Meiðsli ökumannsins reyndust minniháttar.
Ekið var á mannlausa bifreið við Steinahlíð á Egilsstöðum og sá sem þar var að verki ók burtu af vettvangi án þess að tilkynna um tjónið.
Tvö mál bárust til lögreglu þar sem ekið var á búfé. Hraðakstursbrot voru fimm og sá sem hraðast ók var á 129 km. hraða á 90 km. vegarkafla.
Lögreglan vill koma þeim boðum til ökumanna að gæta að aðstæðum á vegum enda kominn sá tími ársins. Hægt er að kanna með færð á vef Vegagerðarinnar eða hringja í síma 1777.