13 September 2017 14:04
Alls sinnti Lögreglan á Austurlandi 100 verkefnum þessa daga. Mest bar á hefðbundum verkefnum þar sem lögregla sinnti aðstoð við borgarana í þeim vandamálum sem komu upp. Sambandsþing ungra sjálfstæðismanna var haldið á Eskifirði dagana 8. til 10. september. Samkoman fór vel fram en þó kom til einhverra afskipta lögreglu þar sem nokkra þekkingu vantaði uppá það hversu glatt mætti skemmta sér að næturlagi hér í eystra. Níu ökumenn voru sektaðir fyrir að aka heldur geyst um umdæmið þessa daga og fóru erlendir ökumenn þar fremstir í flokki sem oft áður. Sá sem hraðast ók var á 125 km hraða þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Í umdæminu urðu fjögur umferðaróhöpp án mikilla meiðsla. Aðfararnótt 10. kviknaði í bifreið sem ekið hafði verið útaf og er mikil mildi að ökumaður og farþegar sluppu lítið slasaðir frá því óhappi. Til lögreglu bárust fjórar tilkynningar um að ekið hefði verið á búfé. Ökumaður var sektaður fyrir að aka með farþega á palli bifreiðar og ekki þarf að hafa mörg orð um hvaða hættu svoleiðis háttalag getur haft í för með sér. Lögregla hafði afskipti af ferðalöngum sem voru búnir að tjalda utan tjaldsvæða og tóku þeir vel í að taka sig upp og færa viðlegubúnað á tjaldsvæði.