30 Ágúst 2017 16:41
Ríkislögreglustjóra barst á dögunum eftirfarandi fyrirspurn frá blaðamanni DV og í ljósi umfjöllunar blaðsins um efnið og rangfærslur þar er ástæða til að birta bæði fyrirspurnina og svarið við henni til blaðsins:
„Ég var að ræða við fulltrúa sýslumanns um langan afgreiðslutíma ökuskírteina. Hann skýrist víst af samningi Ríkislögreglustjóra við ungverskt fyrirtæki (í samvinnu við Öryggismiðstöðina). Ég var að velta fyrir mér hvort að þú gætir gefið mér upplýsingar um hvað samningurinn gildi til langs tíma? Er eitthvað endurskoðunarákvæði á samningnum?“
Blaðamaðurinn fékk eftirfarandi svar við fyrirspurninni:
„Afgreiðslutími ökuskírteina getur ekki talist langur.
Ríkislögreglustjóri undirritaði þann 30. apríl 2013 upprunalegan samning til fjögurra ára við fyrirtækið Allami Nyomda í Ungverjalandi, sem síðar breytti nafninu í ANY Security Document Printing Company. Í samningnum er í samræmi við útboðsgögnin kveðið á um heimild til að framlengja samninginn í tvö ár. Samningurinn við ANY um framleiðslu ökuskírteinanna var framlengdur í vor og gildir til loka apríl 2019. ANY sér um að framleiða ökuskírteinin og boðsenda þau til Öryggismiðstöðvarinnar sem annast dreifingu þeirra til sýslumannsembættanna.
Engin önnur uppsagnarákvæði eru í samningnum en þau að verði alvarlegir brestir varðandi ákvæði hans, sé báðum samningsaðilum heimilt að segja honum upp.
Í samningnum er kveðið á um að ANY fær send gögn vegna framleiðslu ökuskírteina einu sinni í viku, við lok dags hvers föstudags. ANY hefur síðan sjö virka daga til að skila framleiddum skírteinum á skrifstofu þess embættis sem pantaði skírteinið. Skírteini sem pantað er á föstudegi er þannig afhent á öðrum þriðjudegi þar á eftir eða 10 dögum síðar. Hafi umsækjandi sótt um skírteini einhverjum dögum fyrir þann föstudag, bætist sá dagafjöldi við og eins bætist við sá tími sem Pósturinn þarf til að dreifa pósti ef umsækjandinn hefur óskað eftir því að fá ökuskírteinið sent heim.
Stöku sinnum hafa komið upp tæknilegar bilanir sem hafa valdið því að pantanir voru ekki sendar og eins hafa komið upp tæknilegar bilanir hjá ANY sem ollu töfum á framleiðslu. Um er að ræða afar fá tilvik. Þá hefur framleiðsla dregist í nokkra daga yfir stórhátíðir eins og jól og páska, en að annars verið innan tímamarka samningsins milli RLS og ANY.“
Þessu til viðbótar er vert að taka fram að íslensk ökuskírteini eru gefin út í samræmi við Evróputilskipun um ökuskírteini sem gerir það að verkum að þau eru jafngild ökuskírteinum sem gefin eru út í öllum aðildarlöndum EES samningsins. Til að uppfylla þau skilyrði þurfa skírteinin meðal annars að vera framleidd úr sérstöku koltrefjaefni og innihalda lágmarksfjölda öryggisatriða, sem og að persónutengjanlegar upplýsingar séu skráðar á þau með öruggum hætti og ókleift að eyða eða breyta þeim. Mjög flókinn og dýran búnað þarf til slíkrar framleiðslu.
Um er að ræða framleiðslu um 30.000 skírteina á ári hverju sem hefur í för með sér að kostnaður er það hár að skylt er samkvæmt lögum um opinber innkaup að bjóða viðskiptin út á evrópska efnahagssvæðinu. Tilboð bárust eingöngu frá erlendum fyrirtækjum á þessu sviði. Ekkert tilboð barst frá íslenskum framleiðendum en hagstæðasta erlenda tilboðinu var tekið.
Þrátt fyrir að íslensk ökuskírteini séu framleidd í Ungverjalandi og rafrænar pantanir eingöngu sendar einu sinni í viku til framleiðandans, er afhendingartími skírteinanna sambærilegur við það sem gerist í nágrannalöndum okkar.