28 Ágúst 2017 14:45
Að kveldi 21. ágúst var tilkynnt um eld í íbúðarhúsi í Hnífsdal. Einn íbúi var í húsinu og hlaut hann brunasár. Hann var lagður inn á sjúkrahús vegna brunasáranna, sem þó virtust ekki vera lífshættulegir. Svo virðist sem eldurinn hafi kviknað þegar íbúinn var að kveikja upp í eldstæði. Greiðlega tókst að hefta útbreiðslu eldsins og slökkva hann.
Í gærkveldi, kl.22:34, varð eldur laus í bátnum Agli ÍS-77 þar sem hann var staddur út af Dýrafirði. Áhöfnin, fjórir skipverjar, einangruðu eldinn og héldu í skefjum. Skipinu var siglt til næstu hafnar, Þingeyri, og kallaði LHG til nálægra skipa að hraða sér að Agli. Þá voru björgunarsveitir á svæðinu kallaðar til auk slökkviliðsmanna. Þyrla LHG flaug í átt að skipinu með slökkviliðsmenn frá höfuðborgarsvæðinu. Kl.01:13 í nótt kom Egill að bryggju og var eldurinn þá endanlega slökktur. Gerðar höfðu verið ráðstafanir til að láta slökkviliðsmenn síga úr þyrlunni, um borð í Egil, eins að senda slökkviðsmenn á bát á móti en til þess kom þó ekki þar sem sigling Egils til hafnar gekk vel. Undir morgun var tilkynnt um að eldur væri kviknaður aftur í Agli. Slökkvilið Ísafjarðarbæjar fór til slökkvistarfa. Erfiðlega tókst að ráða niðurlögum eldsins í það sinnið, en slökkvistarfi var ekki lokið fyrr en um kl.08:45 í morgun. Mikið tjón varð af þessum eldsvoða. Rannsókn á tildrögum eldsvoðans stendur yfir.
Tilkynnt var um eitt vinnyslys en í því tilviki féll starfsmaður fyrirtækis í Bolungarvík úr stiga. Hann var fluttur á sjúkrahús á Ísafirði, þó ekki með lífshættulega áverka.
Fjórar tilkynningar bárust um að ekið hafi verið á lambfé í umdæminu. Það er því rík ástæða fyrir búfjáreigendur að reyna allt til að halda því frá vegi og sömuleiðis fyrir ökumenn að gæta varúðar, ekki síst í ljósi þess að skyggnið þverr.
Allst voru 18 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í liðinni viku.
Lögreglan fjarlægði skráningarplötur af fólksbifreið einni á Ísafirði. Ástæðan var sú að þak bifreiðarinnar hafði verið fjarlægt en bifreiðin ekki búin viðeigandi öryggisbúnaði fyrir ökumann og farþega. Bifreiðin þannig tekin úr umferð af öryggisástæðum. Lögreglan vill vara við því að skerða öryggi ökutækja með þessum hætti.