11 Júlí 2017 15:25
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í liðinni viku og þá var nokkur erill um helgina án þess þó að upp hafi komið alvarleg mál. Skemmtanahald Goslokahátíðar gengu vel fyrir sig og engin teljandi mál sem upp komu þrátt fyrir að fjöldi manns hafi verið að skemmta sér.
Ein eignaspjöll voru tilkynnt til lögreglu en um var að ræða skemmdir á lundastyttu sem er á Stakkagerðistúni. Er vitað hver þarna var að verki og er málið upplýst.
Einn fékk að gista fangageymslur lögreglu eftir skemmtanahald helgarinnar og var hann leystur út með sekt eftir að víman rann af honum.
Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku en í báðum tilvikum var um minniháttar óhöpp að ræða og lítil sem engin meiðsl á fólki.
Síðdegis þann 9. júlí sl. var lögreglu tilkynnt um eld í rústum gamla Ísfélagsins. Þegar lögreglan kom á staðinn var þar engin eldur en nokkur reykur. Talið er að kveikt hafi verið í stól sem var þarna inni. Ekki er vitað hver þarna var að verki.
Tvær kærur liggja fyrir vegna brota á umferðarlögum og var í öðru tilvikinu of margir farþegar fluttir í bifreið en í hinu var um ólöglega lagningu ökutækis að ræða.