9 Júní 2017 14:31
Afbrotatölfræði lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu fyrir maímánuð 2017 hefur verið birt. Í skýrslunni eru teknar saman upplýsingar um helstu afbrot sem hafa verið tilkynnt til lögreglu. Fjallað er um þróunina á síðustu 13 mánuðum og tölur það sem af er ári bornar saman við sama tímabil síðustu þriggja ára.
Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 714 tilkynningar um hegningarlagabrot í maí. Er það smávægileg fjölgun tilkynninga miðað við aprílmánuð, en fjöldinn reiknast innan marka miðað við fjölda sl. sex mánuði á undan. Tilkynnt var um 113 ofbeldisbrot í maímánuði og hefur tilkynningum það sem af er ári fjölgað um rúm 19 prósent miðað við meðalfjölda á sama tímabili síðustu þriggja ára. Eins fjölgaði tilkynningum um eignaspjöll talsvert í maí. Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst 141 tilkynning um eignaspjöll í sl. mánuði sem eru talsvert fleiri tilkynningar en bárust að meðaltali sl. sex mánuði á undan. Í maí var skráð 41 tilkynning um þjófnað á reiðhjólum. Nú þegar sólin fer hækkandi, sumarið nálgast og reiðhjólum fjölgar á götum borgarinnar er vert að minna eigendur reiðhjóla á að vera á varðbergi og ganga tryggilega frá reiðhjólum sínum.