22 Maí 2017 11:06

Ölvaður ökumaður ók í fyrrinótt á hús í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum. Íbúar í húsinu og nágrenni vöknuðu við mikinn dynk og sáu svo bifreið ekið frá húsinu. Nokkrar skemmdir urðu á því og einnig á bifreiðinni sem lögregla hafði fljótlega upp á. Ökumaðurinn játaði neyslu áfengis og jafnframt að hafa ekið á.

Þá voru sjö ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu um helgina. Sá sem hraðast ók mældist á 142 km hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km á klukkustund.

 

Lögreglan á Suðurnesjum handtók um helgina karlmann á þrítugsaldri sem farið hafði ránshendi um í Reykjanesbæ. Hann játaði að hafa farið inn í bílskúr þar sem hann stal  rafmagnsvespu, fræsitönnum, PD fjarstýringu, mótorhjólahjálmi  og fleiru. Þaðan lá leiðin í Tölvulistann þar sem hann stal fartölvu. Enn hélt maðurinn áfram og nú á Dominos þar sem hann stal úlpu, bakpoka og lyklum af bifreið. Hann fann svo út hvar bifreiðin, sem lyklarnir gengu að, stóð og stal henni. Númeraplöturnar tók hann af bílnum þegar hann var kominn í Garðabæ. Hann stal svo númeraplötum af annarri bifreið sem hann setti á bílinn.

Maðurinn játaði brot sín hjá lögreglu. Við öryggisleit á lögreglustöð reyndist hann vera með meint kannabis í vörslum sínum. Einnig ætlað fíkniefni og talsverða fjármuni í öðrum sokk sínum.

 

Karlmaður í Njarðvík slasaðist þegar hann féll úr stiga í bílskúr sínum um helgina. Hann hafði verið að sækja hrífu upp á milliloft þegar óhappið varð. Við fallið hlaut hann opið beinbrot á ökla og var fluttur með sjúkrabifreið á bráðamóttöku Landspítala í Fossvogi.