6 Febrúar 2017 10:17
Lögreglan á Suðurnesjum hefur kært 25 ökumenn fyrir of hraðan akstur á undanförnum dögum. Sá sem hraðast ók mældist á 146 km. hraða á Reykjanesbraut þar sem hámarkshraði er 90 km. á klukkustund. Undir stýri var erlendur ferðamaður og greiddi hann sekt að upphæð 97.500 krónur á staðnum. Annar ökumaður ók á 139 km. hraða þar sem hámarkshraði er 90 km. á klukkustund. Hann var með fimm ára barn sitt í bílnum og auk sektarinnar var athæfi hans tilkynnt til barnaverndar. Þá var ökumaður hópferðabifreiðar staðinn að því að aka á 95 km. hraða þar sem hámarkshraði er 70 km. á klukkustund og urðu farþegar í bifreiðinni að bíða meðan lögregla ræddi við hann í lögreglubifreið.
Loks komu upp mál þar sem ökumenn iðkuðu þá leiðu hegðun að stinga af eftir að hafa valdið tjóni á ökutækjum. Í einhverjum tilvikum óku menn yfir á rauðu ljósi eða sinntu ekki stöðvunarskyldu. Viðurlög við tveimur síðastnefndu brotunum eru 15.000 króna sekt.