27 Janúar 2017 12:04
Í tveimur húsleitum sem lögreglan á Suðurnesjum gerði í vikunni, að fengnum dómsúrskurði, fundust amfetamín og kannabisefni á báðum stöðum. Á þriðja staðnum haldlagði lögregla svo lítilræði af kannabisefnum.
Þá gekk borgari, sem var að viðra hund sinn, fram á umtalsvert magn af kannabisefnum. Efnin voru í tveimur stórum zip lock pokum. Maðurinn gerði lögreglu viðvart um fundinn.
Loks kom annar borgari á lögreglustöð með lítinn sýnapoka með meintu kannabisefnum sem hann hafði fundið utan dyra.
Lögreglan minnir á fíkniefnasímann 800-500. Í hann má hringja til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.