6 Desember 2016 15:43
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í liðinni viku vegna hinna ýmsu mála sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar gekk með ágætum og engin teljanleg útköll á skemmtistaði bæjarins.
Tvö innbrot voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku en um var að ræða innbrot í verslun N1 á Bársaskersbryggju og innbrot hjá Viking Tours á Tangagötu. Jafnframt var lögreglu tilkynnt um nytjastuld á bifreið og léttu bifhjóli. Lögreglan hefur upplýsingar um hver þarna var að verki og teljast málin að mestu upplýst.
Alls liggja fyrir 11 kærur vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna en um er að ræða hraðakstur, ólöglega lagningu ökutækis, notkun farsíma í akstri án handfrjáls búnaðar, akstur án réttinda og akstur án þess að hafa öryggisbelti spennt.
Lögreglan vill minna ökumenn á eftirfarandi varðandi þokuljós á ökutækjum en það er ekkert rangt við að nota slík ljós, krefjist aðstæður þess sbr. eftirfarandi:
„Í þoku, þéttri úrkomu eða skafrenningi má nota þokuljós í stað eða ásamt lágum ljósgeisla. Hjálparljós má eigi nota til annars en þau eru ætluð.“
Hins vegar ber að nefna að aftur-þokuljós eru eingöngu ætluð til notkunar utanbæjar, í skertu skyggni og má aldrei nota innanbæjar. Þá er gott að árétta að í utanbæjarakstri miðast notkun við þoku, þétta úrkomu eða skafrenning. Borið hefur á því að fólk aki með þokuljós í myrkri. Það er óheimilt og við því er sekt. Aðalmálið er þó að óhófleg notkun þokuljósa getur truflað nætursjón ökumanna sem koma úr gagnstæðri átt, ekki ósvipað og háu ljósin. Til að flækja málin þá eru margar nýrri gerðar bifreiða útbúnar „hliðarbeygjuljósum“, sem tengd eru þannig að á þeim kviknar þegar stefnuljós eru sett á. Slíkur ljósabúnaður er leyfilegur, skv. reglugerð. Athuga ber að þessum ljósum er ætlað að lýsa upp vegöxl, en ekki fram á veginn.