14 Nóvember 2016 15:04
Skráningarnúmer voru tekin af 8 ökutækjum í liðinni viku þegar í ljós kom að þau voru ótryggð. Í þeim tilvikum er engin frestur gefin heldur eru skráningarmerkin tekin af þar sem afskiptin eru höfð. Þau eru síðan afhent næstu skoðunarstofu og þar geta eigendur ökutækjanna nálgast þau gegn framvísun staðfestingar á að lögboðin trygging sé komin í gildi. Eigandi ökutækisins fær að auki 30 þúsund króna sekt fyrir brot sitt.
Þrír ökumenn voru teknir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna og var einn þeirra á ótryggðu ökutæki sem klippt var af eins og kemur fram hér að ofan. Annar af þeim þremur var nú stöðvaður öðru sinni, á fyrir óafgreitt mál í kerfinu þar sem kókaín mældist í sýni frá honum. Hann var nú sviptur ökurétti til bráðabirgða. Einn ökumaður var tekinn grunaður um akstur undir áhrifum áfengis.
Bifreið valt á s.k. Þúsundvatnaleið á Hellisheiði þann 11. nóvember s.l. 4 voru í bílnum og reyndist einn þeirra með minniháttar meiðsl. Hann var fluttur til aðhlynningar á sjúkrahús í Reykjavík. Sama dag varð árekstur milli tveggja bifreiða á Suðurlandsvegi við Þórsmerkurveg. Tildrög hans voru að indverskur ferðamaður á austurleið hugðist beygja inn á Þórsmerkurveg og ók hann í veg fyrir bifreið sem ekið var til vesturs eftir Suðurlandsvegi. Farþegi í bifreið Indverjans slasaðist nokkuð og var fluttur á sjúkrahús í Reykjavík til aðhlynningar.
42 voru kærðir fyrir að aka of hratt í liðinni viku. Sá sem hraðast ók mældist á 182 km/klst hraða eftir Suðurlandsvegi við Heimaland þar sem leyfður hámarkshraði er 90 km/klst. Hann var sviptur ökurétti til þriggja mánaða og greiddi 160 þúsund króna sekt. Um er að ræða erlendan ferðamann.