31 Október 2016 11:16
Tvö slys urðu í umdæmi lögreglunnar á Suðurnesjum undir og um helgina. Karlmaður var að fara niður af millilofti í Innileikjagarðinum eftir að hafa verið þar að störfum. Hann hugðist nota stiga til að komast aftur niður en ekki vildi betur til en svo að stiginn rann undan honum með þeim afleiðingum að maðurinn féll niður á gólfið. Hann fékk skurð á höfuðið og kvartaði undan eymslum. Hann var fluttur á bráðamóttöku Landspítala og tilkynning send á Vinnueftirlit ríkisins.
Þá slasaðist ungur drengur þar sem hann var að spila fótbolta í Reykjaneshöllinni og féll aftur fyrir sig. Talið var að hann hefði handleggsbrotnað og var hann fluttur til aðhlynningar á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja.