21 Október 2016 10:08
Embætti ríkislögreglustjóra hefur birt niðurstöður könnunar um reynslu landsmanna af afbrotum á vef lögreglunnar. Helstu niðurstöður eru þær að flestir sögðust hafa orðið fyrir eignaspjöllum, eða um 19% landsmanna á aldrinum 18 ára og eldri. Þá urðu um 9% landsmanna fyrir þjófnaði, 7% fyrir innbroti og 5% fyrir brotum vegna viðskipta á netinu (þ.e. tapa peningum eða fá svikna vöru). Fæstir urðu fyrir ofbeldis- eða kynferðisbroti, en athygli vekur hversu lítill munurinn er. Um 2,1% urðu fyrir ofbeldisbroti og 2,0% fyrir kynferðisbroti. Marktækur munur var á nokkrum hópum en svör voru greind eftir kyni, aldri, búsetu og menntun. T.d. höfðu fleiri konur orðið fyrir innbroti en karlar og það átti einnig við um kynferðisbrot. Karlar voru hins vegar líklegri en konur að verða fyrir brotum vegna viðskipta á netinu.
Þeir sem höfðu orðið fyrir kynferðisbroti voru beðnir að velja á milli fjögurra valmöguleika, þ.e. hvernig hann/hún myndi lýsa atvikinu. Um 13% lýstu atvikinu sem „nauðgun“, 9% sem „tilraun til nauðgunar“, 41% sem „grófri kynferðislegri áreitni“ og 37% sem „særandi framkomu“. Um 10% þeirra sem sögðust hafa orðið fyrir kynferðisbroti höfðu tilkynnt það til lögreglu, sem er hærra hlutfall en síðustu þrjú ár á undan.
Skýrsluna í heild sinni má finna hér. Er þetta fyrsti hluti niðurstaðna, en á næstu vikum munu vera birtar aðrar niðurstöður könnunarinnar þar sem farið er yfir a) viðhorf til lögreglu, b) öryggistilfinningu íbúa og c) reynslu af heimilisofbeldi og eltihrelli.
Um könnunina
Um er að ræða netkönnun sem lögð var fyrir 4.000 landsmenn 18 ára og eldri. Könnunin var framkvæmd af Gallup fyrir embætti ríkislögreglustjóra og lögregluna á höfuðborgarsvæðinu. Svarhlutfall var um 64%. Gögnin voru vigtuð til þess að endurspegla þýði sem best með tilliti til búsetu, aldurs, menntunar og kyns.