18 Október 2016 14:49
Aðeins varð einn eiginlegur árekstur milli bíla í umdæminu í sl. viku og hann var auk þess minniháttar. En hins vegar var ekið fimm sinnum á skepnur í umdæminu í sl. viku, þar af einu sinni á hross. Ekið var á hrossið á Innnesvegi undir Akrafjalli um miðnættið aðfaranótt sl. laugardags. Bíllinn tjónaðist mikið og lenti utan vegar. Ökumaðurinn var talinn óbrotinn en hann var fluttur á sjúkrahús til nánari skoðunar. Bíllinn var óökufær og var fjarlægður með kranabíl. Hrossið drapst samstundis en það hafði sloppið úr girðingarhólfi skammt frá. Ekið var á kind á Hvalfjarðarvegi vestan við Ferstiklu að morgni sl. fimmtudags. Ökumaðurinn slapp ómeiddur en kindin drapst og bíllinn tjónaðist töluvert að framan. Í hinum tilvikunum þá stungu ökumennirnir af frá ákeyrslunni án þess að láta lögregluna eða viðkomandi bændur vita. Slíkt athæfi ber að átelja því stundum lifa skepnurnar af þó þær skaddist við ákeyrslu og kveljast þá þar til þær finnast. Eins snýst málið einnig um tryggingar. Ef bíllinn finnst þá bera tryggingar bílsins tjónið en annars fellur tjónið á viðkomandi bónda nema hann sé með sérstakar búfjártrygingar sem verja hans hlut. Mikilvægt er að bændur og búalið hugi vel að girðingum og gæti þess að gripir sleppi ekki út á vegsvæðin með ófyrirséðum afleiðingum fyrir menn og skepnur. Þá hefur Vegagerðin tekið að sér girðingarviðhald á fjölförnustu vegunum og smölun vegsvæða og er það vel.
En það er fleira sem plagar sauðféð en umferðin. Kind og lamb fundust niður undir Akranesi í sl. viku og voru þau bæði greinilega bitin, annað hvort af hundi eða tófu. Nauðsynlegt er að fólk láti vita ef að það sér hunda vera að atast í kindum eða ef það verður vart við lágfótu á ferðinni innan um fé eða aðrar skepnur.
Eldur kviknaði í gömlu íbúðarhúsi að Kolbeinsstöðum í fyrrum Kolbeinsstaðahreppi aðfaranótt sl. mánudags. Verið var að gera húsið upp en húsið var mannlaust þegar eldurinn kviknaði. Slökkvistarf gekk greiðlega fyrir sig. Upptök eldsins liggja ekki fyrir og er málið til rannsóknar hjá rannsóknardeild LVL.