27 September 2016 15:00
Tveir ökumenn voru teknir fyrir meinta ölvun við akstur í umdæminu í sl. viku.
Alls urðu 8 umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku. Erlendur ferðamaður missti bílaleigubíl sinn útaf í lausamöl við Fróðastaði í Hvítársíðu í Borgarfirði. Bíllinn valt í vegkantinum og hafnaði á hvolfi. Fernt var í bílnum og allir voru í öryggisbeltum og sluppu án teljandi meiðsla. Bílaleigan var treg til að útvega ferðafólkinu annan bíl, því að þeirra sögn, var þetta annar bíllinn sem að þau höfðu tjónað á ferð sinni um landið. Erlendir ferðamenn misstu jeppling sinn útaf Hálsasveitarvegi í Borgarfirði í lausamöl á malarvegi og fór bíllinn nokkrar veltur. Fólkið var í öryggisbeltum og sakaði ekki en bíllinn var óökufær. Tveir erlendir ferðamenn voru í jeppa sem að fór útaf í lausamöl á Laxárdalsheiði. Fór jeppinn nokkrar veltur utan vegarins. Klippa þurfti þak jeppans af til að komast að ökumanninum. Ökumaðurinn hlaut höfuðhögg og var hann fluttur með sjúkrabíl á sjúkrahús í Reykjavík, farþegann sakaði ekki. Erlendir ferðamenn áttu hlut að máli í fjórum af þessum átta umferðaróhöppum.
Samtals tóku hraðamyndavélarnar myndir af 668 ökumönnum víðs vegar um landið í sl. viku. Þar af voru teknar myndir af 235 ökumönnum vegna hraðaksturs við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls. Af þessum 235 bílum voru 183 skráðir bílaleigubílar og því væntanlega erlendir ökumenn undir stýri á þeim flestum.
Tvær erlendar stúlkur, höfðu samband við lögregluna símleiðis og sögðu farir sínar ekki alveg rennisléttar. Þær hefðu ekið út á Snæfellsness og lagt af stað gangandi frá bílnum í björtu og góðu veðri en síðan hefðu þær villst þegar farið var að skyggja og það væri komið óveður og þær vissu ekki hvar þær væru staddar. Þegar búið var að spyrja stúlkurnar töluvert út í staðhætti nefndu þær tvo vita sem þær hefðu séð áður en myrkrið skall á og það fór að hvessa. Staðkunnugir lögreglumenn áttuðu sig á því að stúlkurnar hefðu ekið út á Öndverðanes sem er vestasti tangi Snæfellsnes. Fór lögreglan því þangað og kveikti á bláum ljósum og það nægði til þess að stúlkurnar áttuðu sig og gengu á ljósin frá lögreglubílnum. Voru þær komnar nokkra kílómetra frá bílnum sem þær höfðu lagt upp frá.
Lögreglan var kölluð til vegna tónlistarhávaða frá íbúð í Ólafsvík að næturlagi um sl. helgi. Ekki reyndist unt að ná tali af heimilisfólkinu og var því brugðið á það ráð að slá rafmagninu út tímabundið og það dugði til þess að slá græjurnar út. Nágrannar voru að vonum ánægðir með að frá svefnfrið það sem eftir lifði helgar en þeim hafði lítið orðið svefnsamt í nokkra sólarhringa vegna hávaðans.