19 September 2016 10:58
Rannsókn á banaslysinu á Suðurlandsvegi á Sólheimasandi miðar vel. Karlmaðurinn sem lést var kínverskur ferðamaður fæddur 1971. Hann var í hópi 10 Kínverja sem voru á ferðalagi um Ísland á tveimur bílum. Skömmu fyrir slysið stöðvaði hópurinn á Sólheimasandi rétt hjá þeim stað þar sem slóði niður að flugvélaflakinu fræga er. Þar var bílunum lagt fyrir utan veg og öll ljóst slökkt. Hinn látni, við annan mann fór út, að talið er, til að skima eftir norðurljósum. Sendiráð Kína hefur séð um samskipti við aðstandendur hins látna og lögreglu.
Klukkan 1:45 aðfaranótt sunndags barst tilkynning um bílveltu á Þorlákshafnarvegi á milli Hveragerðis og Þrengslavegar. Þar hafði ökumaður, sem var einn á ferð, misst stjórn á bifreiðinni sem valt eina 30 metra út fyrir veg. Maðurinn slapp með skrámur en bifreiðin er gjörónýt. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa verið undir áfengisáhrifum við aksturinn.
Í síðustu viku voru 44 ökumenn kærðir fyrir hraðakstur. Einn þeirra var sviptur ökurétti til bráðabirgða eftir að hafa verið mældur á 178 kílómetra hraða á leið austur Skeiðarársand á vegarkafla á móts við Háöldukvísl um kvöldmatarleytið á föstudag. Hann var færður á lögreglustöðina á Kirkjubæjarklaustri þar sem hann var yfirheyrður um meint brot og í framhaldi sviptur ökuréttindum. Mál hans verður sent ákæruvaldinu til frekari meðferðar.
Erlendur ferðamaður var kærður fyrir akstur utan vega á Skeiðarársandi austan við Gýgjukvísl. Lögreglu barst tilkynning um aksturinn. Lögreglumenn á Höfn náðu til mannsins sem játaði brotið og gekkst undir sektargreiðslu.
Seint á miðvikudagskvöld var lögreglan kölluð að fjölbýlishúsi á Selfossi vegna ölvunarláta og líkamsárásar. Þar hafði leigjandi í húsinu ráðist á leigusala sinn og veitt honum minni háttar áverka. Árásarmanninum var komið undir læknishendur vegna langvarandi áfengisneyslu sinnar.