13 September 2016 14:11
Alls urðu 8 umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku. Hlutu nokkrir aðilar minniháttar meiðsl en öryggisbeltin og líknarbelgir komu í veg fyrir alvarleg meiðsl á fólki. Hörð aftanákeyrsla varð á Vesturlandsvegi ofan Borgarness þegar ekið var á kyrrstæðan fólksbíl sem var á leiðinni í vinstri beygju inn á Sólbakkann og kastaðist fólksbíllinn útaf veginum. Ökumaður og farþegar voru í öryggisbeltum og sluppu með minniháttar meiðsli. Nokkrar aftanákeyrslur hafa orðið á þessum gatnamótum á sl. árum og væri bót að því að þarna væri vegurinn breikkaður og gert svokallað „framhjáhlaup“. Þá var nokkuð harður árekstur í Reykholtsdal á mótum Borgarfjarðarbrautar og Hálsasveitarvegar en þar var bíl ekið í veg fyrir annan. Ökumaður annars bílsins kvartaði yfir eymslum í hné og var hann fluttur á sjúkrahús til skoðunar. Tvennt var í hinum bílnum og voru þau bæði ómeidd. Bílarnir voru fluttir á brott með kranabíl. Erlendir ökumenn á bílaleigubílum áttu hlut að máli í flestum þessum óhöppum.
Alls voru um 1300 mál bókuð hjá LVL í sl. viku, þar af voru 1144 hraðakstursmál og af þeim tóku lögreglumenn 27 ökumenn í hraðaeftirliti sínu. Sá sem hraðast ók var tekinn á 142 km hraða og er sektarupphæðin 90 þúsund krónur auk fjögurra punkta í ökuferilsskrá. Sá sem ók hraðast á 50 km kafla, var tekinn á 81 km hraða m/v klst. Þar var sektarupphæðin 25 þúsund krónur auk þriggja punkta í ökuferilsskrá. Hraðamyndavélin við Fiskilæk sunnan Hafnarfjalls tók samtals 216 ökumenn fyrir of hraðan akstur í sl. viku.
Við umferðaróhöpp, sérstaklega á gatnamótum, verða oft skemmdir á umferðarmerkjum, nauðsynlegt er að tilkynna slíkt sem fyrst til lögreglu eða starfsmanna Vegagerðarinnar svo merkin séu lagfærð.
Einn ökumaður var tekinn fyrir ölvun við akstur í sl. viku.