29 Ágúst 2016 15:45
Liðin vika var með rólegra móti hjá lögregu og engin alvarleg mál sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar gekk ágætlega fyrir sig en þó var eitthvað um útköll vegna ölvunarástands fólks sem þurfti aðstoð til síns heima. Þá var í nokkrum tilvikum kvartað yfir hávaða í heimahúsum.
Tveir þjófnaðir voru tilkynntir lögreglu í liðinni viku. Var í öðru tilvikinu farið inn að Miðstræti 30 og þaðan stolið m.a. verkfærum. Talið er að þjófnaðurinn hafi átt sér stað aðfaranótt 7. ágúst sl. Í hinu tilvikinu var farið inn að Vesturvegi 17b og þaðan stolið m.a. fatnaði og verkfærum. Er talið að þjófnaðurinn hafi átt sér stað helgin 19. til 21. ágúst sl. Ekki er vitað hver eða hverjir voru að verki í þessum tveimur tilvikum en þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um gerendur eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.
Alls liggja fyrir sjö kærur vegna brota á umferðarlögum og er í fjórum tilvikum um ólöglega lagningu ökutækja að ræða. Þá liggur fyrir ein kæra vegna brots á forgangi sem olli árekstir á gatnamótum Kirkjuvegar og Strandvegar. Ein kæra liggur fyrir vegna akstur án réttinda og ein kæra vegna aksturs gegn rauðu ljósi.
Lögreglan vill benda á að um næstu mánaðarmót þá breytist útivistatími barna og ungmenna þannig: Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu.