24 Ágúst 2016 16:03
Mennta- og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að ganga til samninga við Háskólann á Akureyri vegna kennslu- og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða. Er þetta gert í samræmi við lög nr. 61/2016 sem samþykkt voru á Alþingi 31. maí 2016.
Með lögunum var einnig komið á fót mennta- og starfsþróunarsetri lögreglu. Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu starfar innan embættis ríkislögreglustjóra. Hlutverk mennta- og starfsþróunarseturs er meðal annars:
- Að annast starfsnám nema í lögreglufræðum við háskóla, í samstarfi við háskóla,
- að hafa umsjón með símenntun lögreglumanna innan lögreglu,
- að annast skipulagningu og framboð sérhæfðra námskeiða, eftir atvikum í samstarfi við háskóla eða á grundvelli alþjóðasamstarfs,
- að vera stjórnvöldum til ráðgjafar um menntun lögreglumanna,
- að annast alþjóðasamskipti á vettvangi lögreglumenntunar,
- að annast önnur verkefni er lúta að menntun og fræðslu lögreglu.
Sem fyrr gerir ríkislögreglustjóri ár hvert greiningu á æskilegum fjölda nemenda í starfsnámi hjá lögreglu á grundvelli áætlunar um endurnýjun í lögreglu ríkisins.
Mennta- og starfsþróunarsetur lögreglu annast svo sem fyrr segir starfsnám lögreglunema og velur nema í starfsnám í samstarfi við háskóla.
Nánari upplýsingar veitir Ólafur Örn Bragason, forstöðumaður mennta- og starfsþróunarseturs lögreglu. Hvað námið varðar, þá er áhugasömum bent á að opnað hefur verið fyrir umsóknir í nám í lögreglufræði á vef Háskólans á Akureyri, http://www.unak.is/hugogfelagsvisindasvid/logreglufraedi