2 Ágúst 2016 15:32
Sjósundkappinn Jón Kristinn Þórsson, lögreglumaður í sérsveit ríkislögreglustjóra, þreytti Viðeyjarsund (hið lengra) á dögunum og var það hans fimmta Viðeyjarsundsund. Svokallað Viðeyjarsund er þegar synt er frá Viðey og til Reykjavíkurhafnar, en vinsælt er orðið að synda milli Viðeyjar og Sundahafnar.
Sundið tók tæpa tvo tíma og sjávarhiti var 11°C. Jón hefur stundað sjósund nokkuð lengi og hefur sem dæmi synt Drangeyjarsund. Hann stefnir á að synda frá Vestmannaeyjum til lands á næstunni og er sá undirbúningur í gangi. Svo á hann bókað í Ermasundið á næsta ári og eru allar æfingar miðaðar við það sund.
Jón er einn af köfurum sérsveitar ríkislögreglustjóra en kafarar sérsveitar tóku þátt í björgunnarstörfum og köfuðu undir snjóhengjuna í Sveinsgili þegar verið var að leita að frönskum ferðamanni sem týndist í gilinu.
Sérsveit ríkislögreglustjóra hefur á að skipa atvinnuköfurum sem sinna köfun á vegum lögreglunnar á Íslandi og verkefni kafaranna hafa verið æði mörg og mismunandi í gegnum árin.