18 Apríl 2016 11:20
Vélaskemma í Þykkvabæ skemmdist mikið í bruna aðfaranótt föstudags. Eigandi hennar kom að henni um klukkan 08:30 á föstudag balsti tjónið við honum en eldurinn var slokknaður. Hann hafði verið að vinna í skemmunni kvöldið áður og allt var í lagi þegar hann yfirgaf hana. Tæknideild lögreglunnar sá um vettvangsrannsókn og er að vinna úr niðurstöðum hennar.
Lögreglu barst tilkynning á föstudag um að 20 fermetra gestahús við Selhólsveg í Grímsnesi væri brunnið til kaldra kola og talið að það hafi gerst á tímabilinu frá sunnudeginum 10. til þriðjudagsins 12. apríl síðastliðinn. Engar vísbendingar eru um eldsupptök. Rafmagn var á húsinu og tveir rafmagnsþilofnar stilltir á lágan hita til að halda húsinu frostfríu. Einnig er vitað að kveikt var á einni sparljósaperu. Sérstakt er að engin tilkynning hafi borist þegar húsið brann sem bendir til að það hafi átt sér stað að næturlagi. Lögreglan á Suðurlandi biður alla þá sem veitt geta upplýsingar um málið að hafa samband í síma 444 2010 eða á logreglan@sudurland.is.
Í síðustu viku bárust tvær tilkynningar um sinubruna, annar í Árnessýslu og hinn í Rangárvallasýslu. Slökkviliðsmenn réðu niðurlögum eldsins og ekkert tjón mun hafa hlotist af.
Kona slasaðist á fæti á fimmtudag þar sem hún var á göngu neðst í Flájökli ofan við Mýrar í Hornafjarðarsveit. Sjúkraliðar fóru á staðinn til að sinna konunni og búa hana undir flutning á heilsugæslustöðina á Höfn sem björgunarsveitarmenn sáu um.
Aðfaranótt þriðjudags var brotist inn í hesthús í Þorlákshöfn og þaðan, meðal annars, stolið rafmagnsverkfærum. Einnig var farið inn í bíl sem stóð fyrir utan hesthúsið og rótað í honum auk þess voru unnin skemmdarverk á honum með því að rispa lakk. Lögreglan á Suðurnesjum handtók menn sem grunaðir eru um að hafa verið að verki í hesthúsinu. Málið er í rannsókn.
Lögregla lokaði gistiaðstöðu á Höfn í Hornafirði á föstudag vegna þess að eigandi var ekki með gild leyfi fyrir starfseminni. Í húsinu voru tvö herbergi sem grunur var um að væri í útleigu til ferðamanna. Herbergin voru innsigluð þar til tilskilin leyfi verða klár. Forsvarsmaður gististaðarins verður kærður fyrir brot á lögum um veitinga og gististaði.