22 Mars 2016 14:33
Aðeins urðu þrjú umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl viku og telst það mjög vel sloppið miðað við að í sumum undanförnum vikum hafa þau orðið yfir tíu talsins. Í einu tilvikinu var ekið á ljósastaur á Akranesi, um erlendan ferðamenn var að ræða og hafði ökumaðurinn misst stjórn á akstrinum vegna bleytu á veginum. Ljósastaurinn féll um koll og bíllinn varð óökufær. Farið var með ökumanninn á sjúkrahús til skoðunar en hann hafði hlotið minniháttar meiðsl við höggið, farþegann sakaði hins vegar ekki.
Rúmlega 700 ökumenn voru sektaðir fyrir of hraðan akstur í sl. viku, flestir fyrir að aka of hratt fram hjá sjálfvirku hraðamyndavélunum, sem eru víðs vegar um landið en í umsjá LVL. Innan umdæmisins óku flestir of hratt við Fiskilæk eða um 80 ökumenn.
Nokkrir ökumenn voru sektaðir fyrir að vera ekki með öryggisbelti spennt og aðrir fyrir að tala í síma án handfrjáls búnaðar. Lögreglan stöðvaði töluvert af stórum flutningabílum í vikunni og kannaði ástand ökumanna og ökutækja. Flestir voru með öll sín mál í lagi en aðrir þurftu að færa til farm og aðrir að afferma hluta farms vegna of mikils þunga. Þá voru gerðar athugasemdir vegna ljósabúnaðar og mönnum gert að koma slíku í lag.
Einn ökumaður fólksbíls var tekinn grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.
Þá kölluðu erlendir ferðamenn nokkrum sinnum eftir aðstoð eftir að hafa fest bílaleigubílana sína í snjó, tvívegis upp á Uxahryggjum og einu sinni vestur á Snæfellsnesi. Voru þjónustuaðilar sendir þeim til aðstoðar.