5 Janúar 2016 14:50

Alls urðu 10 umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku.  Öll án mikilla meiðsla á fólki.

 

Ökumaður smárútu missti stjórn á akstri hennar á Snæfellsnesvegi við Brúarland á Mýrum á nýársdag en þæfingsfærð og hálka var á veginum. Snerist rútan á veginum og rann stjórnlaust áfram og lenti utan í jeppabifreið sem kom á móti og síðan á annarri rútu sem var á eftir jeppanum.  Bifreiðarnar þrjár lentu allar utan vegar og tvær þeirra voru óökufærar.  Enginn meiddist í þessum árekstrum.

Flas ekki til fagnaðar.  Ökumaður sem var í ótímabærum framúrakstri undir Hafnarfjalli missti stjórn á bifreið sinni sem varð þess valdandi að bifreið hans fór útaf sem og bifreiðin sem hann var að fara framúr.

Áramótin gengu að langmestu vel fyrir sig á Vesturlandi.  Lögreglan þurfi þó að hafa afskipti af nokkrum einstaklingum vegna ölvunarástands þeirra.

 

Líkamsárás. Eitt líkamsárásarmál var tilkynnt til lögreglu í sl . viku.  Þar hafði maður barið eiginkonu sína sem að hafði síðan flúið hann yfir í næsta hús.  Var eiginmaðurinn handtekinn og færður á lögreglustöð til yfirheyrslu.  Börn voru á heimilinu og urðu þau vitni að árásinni.  Var barnaverndaraðilum tilkynnt um málið.

 

Skoteldaslys.  Maður um þrítugt fékk flugeld í andlitið á Akranesi um áramótin.  Hann mun hafa borið eld að flugeldi sem síðan sprakk strax í stað þess að skjótast upp í loftið.  Maðurinn hlaut augnskaða, heyrnarskerðingu og brunasár í andlit, auk þess sem að fatnaður hans skemmdist.  Hann er útskrifaðist af skjúkrahúsi eftir að hafa fengið þar viðeigandi meðferð.

 

Tryllingslegt óánægjuöskur.  Maður um þrítugt, sem missti sig yfir úrslitum tölvuleikjar sem hann var með í höndunum, rak um slíkt öskur að það heyrðist vel á milli hæða í íbúðarblokk í Borgarnesi í byrjun árs.  Haft var samband við lögregluna, þar sem talið var ljóst að eitthvað mjög alvarlegt væri í gangi.  Lögreglan mætti skjótt á vettvang en viðkomandi svaraði ekki strax því hann hafði skellt sér í kalda sturtu til að ná sér niður.  Ekki fer sögum af því í hvaða tölvuleik manninum gekk svona illa en svona geta „fullorðnir“ menn lifað sig inn í óraunveruleikann í tölvu- og tækniheimi nútímans með svo þessum afleiðingum í raunheimum.

 

Erlendir vetrarferðamenn. Nær daglega þarf að koma erlendum ferðamönnum til aðstoðar á Vesturlandi sem lent hafa útaf eða fest bíla sína í snjó og ófærð.  Oftast er um minniháttar vandræði að ræða sem auðleyst er úr með því að kalla til dráttarbílaþjónustur eða hringja í góðviljaða bændur.  En einnig kemur fyrir að kalla þarf út björgunarsveitir eða að lögreglan þarf að ganga sjálf í málið. Með bættum upplýsingur til erlendra ferðamanna mætti eflaust fækka þessum útköllum mikið.  Spyrja má hvort að eðlilegt sé að húsbílar séu yfir höfuð leigðir út til erlendra ferðamanna á veturna þegar allra veðra er von.  Nokkrir húsbílar hafa sést á ferðinni á Vesturlandi að undanförnu og að sjálfsögðu hafa komið upp vandamál varðandi notkun þeirra í vetrarfærð, vindhviðum og kulda.