2 Desember 2015 09:05
Mikill meirihluti landsmanna er ánægður með störf lögreglu á landsvísu og telur hana skila góðu starfi, en þetta kemur fram í viðhorfskönnun, sem embætti ríkislögreglustjóra og embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu stóðu fyrir um mitt ár. Í könnuninni, sem var framkvæmd af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands dagana 26. maí til 15. júlí sl., var spurt um viðhorf til lögreglu, ótta borgaranna við afbrot sem og reynslu þeirra af þeim.
Þegar á heildina er lítið, hversu góðu eða slæmu starfi finnst þér lögreglan skila í þínu hverfi/byggðarlagi til að stemma stigu við afbrotum? var ein þeirra spurninga sem varpað var fram í könnuninni, en 90% landsmanna sögðu lögregluna hafa skilað góðu starfi hvað þetta varðar. Þess má geta að í úrtakinu voru rúmlega 4.000 manns á aldrinum 18-75 ára og var svarhlutfallið 62 prósent. Stuðst var við netpanel og voru spurningarnar sendar rafrænt og svörin móttekin með sama hætti. Þess má geta að lögreglan hefur framkvæmt viðhorfskannanir sem þessar mörg undanfarin ár og voru þær í fyrstu gerðar í gegnum síma, en síðustu árin hefur einvörðungu verið um netkannanir að ræða. Að þessu var í fyrsta skipti spurt um reynslu af „brotum vegna viðskipta á netinu“ og „andlegt og líkamlegt ofbeldi í nánum samböndum“.
Eins og oft áður eru niðurstöður viðhorfskönnunarinnar að mörgu leyti jákvæðar fyrir lögregluna, en hún vill þó ávallt gera betur og eftir því er stöðugt leitað. Könnun sem þessi er því lögreglunni afar mikilvæg og kemur að góðum notum þar sem úrbóta kann að vera þörf. Viðhorfskönnun lögreglu er nokkuð ítarleg og eru lesendur hvattir til að kynna sér hana vel.
Niðurstöður fyrir allt landið, greint eftir landshlutum má finna hér.
Niðurstöður fyrir höfuðborgarsvæðið, greint eftir hverfum má finna hér.