24 Nóvember 2015 13:46
Það var í ýmsu að snúast hjá lögreglu í liðinni viku vegna hinna ýmsu mála sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum og lítið um útköll á öldurhúsin.
Þrír þjófnaðir voru tilkynntir til lögreglu í liðinni viku en um er að ræða þjófnað á GSM síma í einu tilvikinu en í hinum er um að ræða þjófnað á peningum úr tveimur bifreiðum. Er talið að þjófnaðurinn úr annarri bifreiðinni hafi verið að kvöldi 16. nóvember sl. eða aðfaranótt 17. nóvember sl. þar sem bifreiðin stóð í innkeyrslu neðarlega á Heiðarvegi.
Í hinu tilvikinu stóð bifreiðin við veitingastaðinn Vöruhúsið að kvöldi 22. nóvember sl. Í báðum tilvikunum voru bifreiðarnar ólæstar og eru ökumenn og eigendur bifreiða hvattir til að læsa bifreiðum sínum en nokkuð er búið að vera um það að undanförnu að farið sé inn í bifreiðar og rótað í þeim og stolið verðmætum úr þeim.
Ekki er vitað hver þarna var að verki og eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um það beðnir um að hafa samband við lögreglu.
Eitt mál vegna brota á vopnalögum kom til kasta lögreglu í liðinni viku en eftir ábendingu hafði lögreglan afskipti af manni inni á einum af öldurhúsum bæjarins sem var með hníf í fórum sínum. Má viðkomandi búast við sekt fyrir ólöglegan vopnaburð.
Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur og hafa þá alls 8 ökumenn verið stöðvaðir vegna gruns um ölvun við akstur það sem af er árinu en á sama tíma í fyrra voru þeir orðnir 10. Í ár hafa hins vegar 14 ökumenn verið stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en á sama tíma í fyrra voru þeir 9.
Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku en í öðru tilvikinu blindaðist ökumaður af sólinni, sem var lágt á lofti, með þeim afleiðingum að bifreiðinn sem hann ók lenti á kyrrstæðri bifreið. Í hinu tilvikinu missti ökumaður stjórn á ökutæki sínu í hálku með þeim afleiðingum að bifreið hans lenti á ljósastaur. Ekki var um slys á fólki að ræða í þessum óhöppum ein tjón varð bæði á bifreiðum sem og ljósastaurnum.
Laust eftir hádegi þann 18. nóvember sl. var lögreglu tilkynnt um slys í fjárhúsi suður á Eyju en þarna hafði maður fallið eina fimm metra niður af þaki, en hann hafði misst meðvitund við fallið. Maðurinn skaddaðist m.a. á hrygg við fallið og var fluttur á sjúkrahús með sjúkrabifreið.