14 September 2015 09:16
Tilkynning barst í gærmorgun á lögreglustöðina í Vík í Mýrdal um fjórhjólaslys á Skammadalsheiði í Mýrdal. Mikið torleiði var á slysstað og þurfti að kalla til björgunarsveitarmenn til aðstoðar auk þess sem maður, sem var þar á ferð á breyttum jeppa, hjálpaði til við að koma hjálp á staðinn. Slysið bar að með þeim hætti að unglingspiltur á fjórhjóli fékk það yfir sig þegar fjórhjólið stöðvaðist skyndilega vegna bilunar. Pilturinn mun hafa fótbrotnað og var honum komið niður af heiðinni þar sem læknir og hjúkrunarfræðingur tóku við honum og í framhaldi var hann fluttur með sjúkrabifreið á slysadeild.
Maður slasaðist er hann féll af stiga sem rann undan honum þar sem hann hafði verið að mála íbúðarhús á Hellu. Fallið var um þrír metrar. Talið var að maðurinn hefði fótbrotnað og því var hann fluttur með sjúkrabíl til læknis.
Tvær kærur á broti á nálgunarbanni komu til rannsóknar hjá lögreglunni í síðustu viku.
Brotist var inn í átta sumarbústaði í Bláskógabyggð í síðustu viku. Þjófarnir spenntu upp glugga eða tóku hurðir af hjörum til að komast inn í húsin. Þeir stálu fyrst og fremst flatskjáum. Í einhverjum tilvikum var unnið eignatjón.
Fyrir hádegi síðastliðinn miðvikudag var brotist inn í bifreið sem var á bílastæði við brúarbitann sem er til minnis um flóðið á Skeiðará. Hliðarrúða var brotin og Acer fartölvu sem var í bifreiðinni stolið. Tjónþolarnir voru ítalskir ferðamenn sem höfðu fengið sér hálftíma göngutúr frá bifreiðinni.
Þrír ökumenn voru kærðir fyrir ölvun við akstur, einn fyrir fíkniefnaakstur, einn fyrir að aka sviptur ökuréttindum og 32 fyrir hraðakstur.