24 Ágúst 2015 16:16
Vikan var með rólegra móti hjá lögreglu, eins og reyndar vikan þar á undan. Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum og engin teljanleg vandamál sem upp komu.
Laust fyrir hádegi þann 18. ágúst sl. var lögreglu tilkynnt um vinnuslys í kertaverksmiðjunni en þarna hafði starfsmaður fallið úr stiga og kvartaði yfir eymslum í baki. Slasaði var fluttur á sjúkrahúsið með sjúkrabifreið til frekari skoðunar.
Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur og þá fengu þrír ökumenn sekt vegna brota á umferðarlögum m.a. vanrækslu á notkun öryggisbeltis í akstri og brot á stöðvunarskyldu.
Lögreglan vill minna ökumann á að fara varlega í umferðinni og þá sérstaklega í kringum grunnskólana enda er skólasarfið að hefjast þessa dagana. Foreldrar og forráðamenn eru hvattir til að ræða við börn sín hvað ber að varast í umferðinni.