4 Ágúst 2015 15:18
Síðast liðin vika var frekar erilsöm hjá lögreglumönnum á Suðurlandi. Alls voru bókuð 434 mál í dagbók lögreglunnar þessa viku. Flest málin voru þó tilkomin um síðast liðna helgi, Verslunarmannahelgina, sem jafnan er ein stærsta ferða- og hátíðahelgi sumarsins. Þar sem spáin var góð fyrir Suðurlandið lagði fjöldi fólks leið sína inn í umdæmi okkar. Mikill fjöldi var á tjaldstæðum í Árnes- og Rangárþingi. Einnig var mikill fjöldi fólks sem lagði leið sína til Vestmannaeyja í gegnum Landeyjahöfn og Bakkaflugvöll.
Embættið lagði mikið í umferðareftirlit þessa helgi þar sem okkur er mjög í mun að gera það sem í okkar valdi stendur til að fækka alvarlegum umferðarslysum og koma fólki heilu heim. Lögreglumenn voru mjög virkir við umferðareftirlit þessa helgina og voru rúmlega 1000 ökumenn stöðvaðir vítt og breitt um umdæmið til að kanna ástand ökumanna og búnað bifreiða.
Einnig naut embættið aðstoðar þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar við eftirlitið um helgina og voru þjóðvegir skoðaðir sem og hálendið. Þetta var unnið í samvinnu við embætti ríkislögreglustjóra, en lögreglumenn frá Suðurlandi sinntu eftirlitinu með þyrlusveitinni.
Af þessum fjölda voru 128 ökumenn kærðir fyrir of hraðan akstur, 21 ökumaður vegna ölvunar við akstur, 11 ökumenn vegna gruns um að vera undir áhrifum fíkniefna, 13 ökumenn með útrunnin ökuréttindi og 5 ökumenn sviptir ökuréttindum.
24 umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar í síðast liðinni viku, en ekkert þeirra með alvarlegum meiðslum.
Lögreglumenn munu eftir sem áður hafa stíft eftirlit með vegum í umdæminu nú sem endranær og leggja þar með sitt af mörkum að bættu umferðaröryggi.