20 Júlí 2015 10:28
Í liðinni viku var í þrígang tilkynnt um bruna í umdæminu. Þann 14. júlí kom upp eldur í bifreið skammt vestan við Selfoss. Reyndist minniháttar og búið að slökkva þegar lögreglu bar að. Talið stafa frá leka á hráolíuröri. Þann 18. júlí kom upp eldur í sumarbústað skammt frá Seljavöllum í Rangárþingi eystra. Tveir menn um tvítugt voru í bústaðnum og brenndist annar þeirra lítillega þegar eldurinn kom upp. Bústaðurinn brann til grunna og bifreið sem stóð við húsvegginn eyðilagðist einnig. Talið er líklegt að gasleki hafi orsakað brunann. Þann 19. júlí var tilkynnt um lausan eldi í ruslatunnu á ljósastaur innanbæjar á Selfossi. Lögregla slökkti eldinn.
Tveimur sumarhúsum var fylgt frá byggingarstað að endanlegri staðsetningu og bætast þau í sumarbústaðaflóru umdæmisins sem líklega telur um eða yfir 10.000 bústaði.
Í tvígang var tilkynnt um falsaða peningaseðla, í öðru tilfellinu var um að ræða 1000 krónu seðil sem ferðamaður í Vík hugðist greiða með. Við athugun bankastarfsmanns reyndist seðillinn hinsvegar ófalsaður. Í hinu tilfellinu var um að ræða falsaðan 20 evru seðil sem notaður var í viðskiptum á Laugarvatni og kom fram við yfirferð banka á uppgjöri. Það mál er í rannsókn.
20 mál sem varða slys á fólki eru skráð hjá lögreglu þessa vikuna. Lögreglumenn á Höfn sinntu vélsleðaslysi á Skálafellsjökli. Þar slasaðist erlendur ferðamaður á fæti eftir fall af sleða sem hann ók. Fluttur á Heilsugæslu á Höfn og þaðan í sjúkraflugi til Akureyrar. Annar ferðamaður féll á Sólheimajökli og rotaðist. Kom fljótlega til meðvitundar og var fluttur á heilsugæslu til aðhlynningar en reyndist ekki mikið meiddur. Fimm knapar urðu fyrir meðslum eftir að hafa fallið af baki. Slys þessi eru bæði í þéttbýli og á hálendinu og meiðsl mismunandi. Barn brenndist eftir að heitur vökvi helltist úr bolla yfir það. Þá slasaðist kona eftir að hafa gengið á rúðu í Víkurskála. Rúðan brotnaði og konan hlaut minniháttar skrámur og skurði víðsvegar um líkamann. Lögregla var stödd skammt frá og aðstoðaði viðkomandi þar til sjúkrabifreið kom á staðinn. Í tveimur tilfellum urðu slys á fólki í umferðinni.
Húsbíll fauk í Selvogi í gær. Ekki urðu slys á fólki en björgunarsveitin Mannbjörg í Þorlákshöfn aðstoðaði hjón í bifreiðinni við að bjarga eigum sínum. Þá var björgunarsveit ræst út á Selfossi þegar trampoilín tóku að fjúka.
93 voru kærðir fyrir að aka of hratt. Álagðar sektir þeirra nema rúmlega 4 milljónum. Einn var stöðvaður grunaður um ölvun við akstur og tveir voru stöðvaðir grunaðir um að vera undir áhrifum fíkniefna við akstur bifreiða sinna.
Aðfaranótt mánudagsins 20. júlí var tilkynnt um látinn mann í sumarbústað í Árnessýslu. Lögregla og sjúkralið fór þegar á vettvang en tilkynnandi, sem virtist ölvaður, neitaði að gá frekar að ástandi mannsins sem væri „útlendur og dökkur á hörund“ og honum ókunnugur. Þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang reyndist sá sem tilkynnt var um vera í fölara lagi, íslenskur og öldauður drykkjufélagi tilkynnanda. Hvorugur þeirra reyndust ílla haldnir af öðru en áfengisneyslu. Meintum útlendingi var komið í bústað sinn og ekki aðhafst frekar. Mennirnir eru á sjötugs og áttræðis aldri.