6 Júlí 2015 09:05
Í liðinni viku var 12 sinnu leitað til lögreglu vegna mála sem varða dýra- eða húsdýrahald. Tvisvar var um að ræða lausagöngu nautgripa við þjóðveg. Fimm sinnum var um að ræða lausagöngu hesta við þjóðveg eða í þéttbýli. Þrjú málanna vörðuðu sauðfénað, í tveimur þerra var um að ræða að ekið var á 2 lömb en 1 í hinu tilvikinu en þriðja tilkynningin var vegna lausagöngu fjár við þjóðveg 1. Í tvígang vörðuðu málin hunda sem fundust lausir á víðavangi. Eins og kunnugt er nær umdæmi Lögreglunnar á Suðurlandi frá Litlu kaffistofunni í vestri að Hvalnesskriðum í austri og því við því að búast að dýrahald komi við sögu í störfum lögreglunnar.
58 ökumenn voru kærðir fyrir að aka of hratt í umdæminu. Flestir þeirra greiddu sekt sína á vettvangi en heildarálagning sekta vegna þessara brota nam rúmlega 2,7 milljónum króna. 25 % afsláttur er veittur af sektum vegna þessara mála sé sekt greidd innan 30 daga og því nema tekjur ríkissjóðs af þessum sektum þegar öllum málunum er lokið um 2 milljónum króna. Flestar eru sektirnar að upphæð 50.000.- krónur eða 31 en 9 voru sektaðir um 70.000.- aðrir voru undir 50 þúsund króna markinu. Þess má geta að hægt er að komast með flugi til flestra borga Evropu fyrir svipaðar upphæðir. Lögregla mun halda þessu eftirliti áfram en meginmarkmiðið með því er að allir komist heilir heim. Hraðakstur er jú meðverkandi þáttur í lang flestum umferðarslysum á þjóðvegum landsins.
Fimm ökumenn voru kærðir fyrir að aka undir áhrifum áfengis. Einn þeirra hafði ekki aldur til þess að öðlast ökuréttindi og lenti út af vegi innan þjóðgarðsins á Þingvöllum. Ekki urðu slys á fólki. Fjórir voru kærðir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.
7 umferðaróhöpp þar sem slys urðu á fólki vou tilkynnt til lögreglu í vikunni. Í einu tilvikinu sprakk húsbíll í vindi í Öræfum og í öðru valt bíll á Þjóðvegi 1 við Brest í V-skaftafellssýslu. Í báðum tilfellum reyndust meiðsl á fólki minniháttar en bílarnir ónýtir eftir. Þá fuku tveir húsbílar í Öræfum í sömu vindhviðunni um kl. 14:30 þann 5. júlí. 3 farþegar í þeim reyndust með minniháttar meiðsl og voru fluttir til Hafnar þar sem gert var að sárum þeirra.
Þann 1. júlí voru björgunarsveitir fengnar til að aðstoða erlenda stúlku sem hafði slasast á fæti í Hrafntinnuskerjum við að komast undir læknishendur. Þá brenndist erlendur ferðamaður á fæti þann 4. júlí á tjaldsvæði við Geysi þegar vökvi úr potti helltist yfir fætur hans.
Fjórum sinnum í liðinni viku var lögregla og sjúkralið á Suðurlandi kallað til vegna alvarlegra bráðaveikinda. Þar af í tvígang þyrla LHG. Í einu tilvikinu báru endurlífgunartilraunir árangur og að því er best er vitað mun viðkomandi að líkindum ná heilsu að fullu. Þar réði úrslitum skyndihjálparkunnátta annarra heimilismanna. Í hinum tveimur tilfellunum brugðust viðstaddir hárrétt við og hófu þegar endurlífgun. Í öðru tilvikinu tókst að ná hjarta viðkomandi í takt á ný en ekki reyndist unt að bjarga viðkomandi og voru þessir tveir aðilar úrskurðaðir látnir á sjúkrahúsi í Reykjavík. Í fjórða tilfellinu reyndist viðkomandi látinn þegar að var komið. Við hvetjum fólk til þess að sækja námskeið í skyndihjálp því við vitum aldrei hvenær slíkrar þekkingar getur verið þörf. Slík námskeið eru t.d. reglulega í boði RKÍ og upplýsingar um þau að finna á vefnum skyndihjalp.is
Þegar unnið er í útköllum sem þessum þurfa viðbragðseiningar að hafa mikil og góð samskipti að og frá vettvangi. Þannig þurfa viðbragðseiningar á leið á vettvang að fá upplýsingar þaðan og þeim sem er ætlað að taka við sjúklingum að fá upplýsingar frá björgunarliði á vettvangi til að geta undirbúið komu á sjúkrahús. Flest þessi samskipti fara fram á lokuðum fjarskiptarásum TETRA en einnig um GSM síma viðbragðsaðila. Að undanförnu hefur það gerst að fjölmiðlar hafa hringt í GSM síma viðbragðsaðila á meðan á þessari vinnu stendur vegna vinnu sinnar við að upplýsa um atburði sem allra fyrst. Fjölmiðlun er samfélagi okkar nauðsynleg en vert er að hver skoði inn á við hjá sér hvort fréttaflutningur sé svo mikilvægur að rétt sé að hætta á að teppa fjarskipti þeirra sem að endurlífgun vinna með símhringingum eða trufla samtöl viðbragðsaðila við aðstandendur þegar verið er að upplýsa um að lífgunartilraunir hafi ekki borið árangur.