27 Apríl 2015 15:35
Það var í ýmis horn að líta hjá lögreglu í vikunni vegna hinna ýmsu mála sem upp komu. Rólegt var í kringum skemmtistaði bæjarins þrátt fyrir að töluverður fjöldi hafi verið að skemmta sér. Ekki var um nein teljandi útköll á öldurhúsin þessa helgina.
Síðdegis þann 24. apríl sl. var lögreglu tilkynnt um sinubruna í hrauninu sunnan Foldahrauns og var slökkviliðið kallað út og gekk greiðlega að ráða niðurlögum eldsins. Þarna höfðu nokkrir ungir drengir verið að fikta með eld með þessum afleiðingum.
þann 22. apríl sl. var lögreglu tilkynnt um að Maggý VE hafi fengið tundurdufl í snurvoðina við Landeyjasand. Óskað var eftir aðstoð Landhelgisgæsluna og kom sprengisveit hennar til Eyja og var farið með duflið í malarnámuna austast á Nýjahrauni þar sem það var sprengt.
Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í liðinni viku en þarna var um minniháttar óhapp að ræða og engin slys á fólki.
Alls liggja fyrir fimm kærur vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna, tvær kærur vegna vanrækslu á að hafa öryggisbelti spennt í akstri, þrjár kærur vegna ólöglegrar lagningar ökutækis og ein vegna notkun á farsíma í akstir án handfrjáls búnaðar.
Lögreglan vill koma þeim tilmælum til foreldra og forráðamanna barna að þann 1. maí nk. breytist útivistatími barna og lengist þá heimildi þeirra til að vera á almannafæri um tvær klukkustundir, eins og fram kemur í 92. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002:
„Börn, 12 ára og yngri, mega ekki vera á almannafæri eftir klukkan 20.00 nema í fylgd með fullorðnum. Börn, sem eru á aldrinum 13 til 16 ára, skulu ekki vera á almannafæri eftir klukkan 22.00, enda séu þau ekki á heimferð frá viðurkenndri skóla-, íþrótta- eða æskulýðssamkomu. Á tímabilinu 1. maí til 1. september lengist útivistartími barna um tvær klukkustundir.“
Varðandi aldur þá er miðað við almannaksár.